Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi og markaðsstjóri hjá Eimskip, hefur verið fundinn sekur um ofbeldi gegn barnsmóður sinni. Þá hefur hann verið fundinn sekur um brot gegn barnaverndarlögum, en dóttir hans varð vitni af ofbeldinu. Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag, en atvikið átti sér stað á heimili Ólafs sumarið 2016. Hefur hann verið dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og þarf að greiða barnsmóður sinni 400 þúsund krónur í bætur. DV greindi fyrst frá.

Umræddan dag, sumarið 2016, kom barnsmóðir Ólafs á heimili hans í fylgd með sambýlismanni sínum og fulltrúa lögreglu. Ætluðu þau erlendis með barnið, en Ólafur og barnsmóðir hans höfu verið í tölvupóstsamskiptum varðandi ferðalagið. Í niðurstöðu héraðsdóms kemur fram að barnsmóðir hans hefði mátt ráða af svörum Ólafs að hann ætlaði ekki að skila barninu í tíma fyrir ferðina.

Kom hún því sem fyrr segir á heimili Ólafs í fylgt með lögreglumanni og sambýlismanni sínum. Í dómi héraðsdóms kemur fram að hún hafi farið inn í hús Óalfs í óleyfi, en sagist hún hafa gert það er hún heyrði barnið kalla til sín álengdar.

„Brotaþoli dvaldist mjög skamma stund inni í húsinu, innan við mínútu af framburði að dæma, áður en hún kom út með barnið. Hvað gerðist inni í húsinu á þessum skamma tíma er umdeilt. Brotaþoli ber að ákærðu hafi bæði ráðist á hana en ákærðu bera að hún hafi ráðist á þau,“ að því sem fram kemur í niðurstöðu héraðsdóms.

Ólafur neitaði sök en var hann sakfelldur fyrir að hafa tekið barnsmóður sína hálstaki, þrengt ítrekað að hálsi hennar og hrint henni þannig að hún féll í gólfið. Þá var hann sýknaður af því að hafa rifið í hár hennar og hent henni utan í vegg. Sambýliskona Ólafs var sýknuð af því að hafa veist að barnsmóðir hans með ofbeldi.