Kórónu­veirufar­aldurinn hefur haft mikil á­hrif víða og í Suður-Ameríku er staðan einna verst í borginni Guayaqu­il í Ekvador. Þar hafa yfir­völd ekki haft undan þar sem tala látinna hækkar dag frá degi. Lík­hús borgarinnar eru full og sömu sögu er að segja af út­farar­heimilum.

Komið fyrir úti á götu

Was­hington Post fjallaði um stöðu mála í þessari fjöl­mennustu borg Ekvador, en í­búar þar eru rúmar 2 milljónir. Opin­berar tölur gefa til kynna 1.300 smit og 60 dauðs­föll í borginni og ná­grenni hennar. Þó eru taldar veru­lega líkur á að þessar tölur séu í raun mun hærri, meðal annars vegna skorts á búnaði til sýna­töku.

Í fréttinni kemur fram að dæmi séu um að lík liggi ó­hreyfð inni á sjúkra­húsum svo dögum skiptir.

Önnur nötur­legri dæmi eru einnig nefnd. Þannig eru dæmi um að nokkra daga geti tekið að sækja lík ein­stak­linga sem látist hafa heima hjá sér. Í­búar hafa sumir tekið gripið til sinna ráða og komið látnum ást­vinum fyrir úti á götu.

Biðlaði til forsetans

Í einu mynd­bandi, sem vakið hefur tals­verða at­hygli á sam­fé­lags­miðlum, sést kona biðla til for­seta Ekvadors eftir and­lát eigin­manns hennar. Konan hafði óskað eftir því að hann yrði sóttur og fengið lof­orð um að ein­hver myndi koma. Þegar nokkrir dagar voru liðnir birti konan mynd­bandið í þeirri von að ein­hver myndi vitja hans. „Ég vil bara að hann fari með reisn,“ sagði konan.

Þessi saga er ekkert eins­dæmi, eins og bent er á í um­fjöllun blaðsins. Diego Diaz Chamba sagði í við­tali við Miami Herald að hann hafi þurft að bíða í fimm daga eftir að móðir hans var sótt. Móðir hans, hin 79 ára Elsa Maria, var ekki talin nógu veik til að komast undir læknis­hendur. Diego segir að hann og bræður hans hafi reynt að kaupa súr­efnis­grímur fyrir Elsu en kostnaðurinn verið þeim of­viða. Elsa þurfti að lokum að játa sig sigraða í baráttu sinni og var banamein hennar að lokum hjartaáfall, að talið er.

„Staðan versnar með hverjum deginum. Við höfum séð fólk brenna lík ást­vina sinna úti á götu. Það kemur enginn og sækir þau,“ segir Diego.

Jor­ge Wa­ted, full­trúi yfir­valda vegna Co­vid-19 far­aldursins í borginni, segir að um 150 lík séu sótt á hverjum degi. Cynthia Viteri, borgar­stjóri Guayaqu­il, sagði í vikunni að von væri á fjórum flutninga­bílum sem myndu nýtast sem lík­geymslur meðan þetta á­stand varir. Þá væri von á 60 öndunar­vélum og 50 þúsund sýna­töku­prófum.