Fimm þingmenn Vinstri grænna hafa lagt fram þingsályktunartillögu um gjaldtöku vegna nýtingar á vindi. Fyrsti flutningsmaður er Orri Páll Jóhannsson en meðflutningsmenn eru Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingflokksformaður, Jódís Skúladóttir, Lilja Rafney Magnúsdóttir og Steinunn Þóra Árnadóttir.

Samkvæmt tillögunni er Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, falið að leggja fram frumvarp sem tryggi hlut þjóðarinnar í arðinum af nýtingu vindorku til raforkuframleiðslu með innheimtu auðlindagjalds. „Vindur verði skilgreindur í lögum sem sameiginleg auðlind í eigu þjóðarinnar,“ segir í ályktuninni.