Ra­ven Ya­tes, 31 árs kona frá Texas í Banda­ríkjunum, hefur verið á­kærð fyrir al­var­lega van­rækslu með því að skilja tvö börn sín, 12 ára stúlku og þriggja ára son, eftir eftir­lits­laus á heimili sínu í um tvo mánuði.

Frétta­miðillinn Law and Crime greinir frá því að Ra­ven hafi yfir­gefið börn sín þann 8. septem­ber í fyrra og skilið þau eftir eftir­laus og án að­gangs að mat eða lyfjum.

Það var ekki fyrr en í nóvember að föður barnanna, sem bú­settur er í öðru ríki, fór að gruna að eitt­hvað undar­legt væri á seyði, meðal annars vegna þess að dóttir hans bað hann í­trekað að panta mat og láta senda hann heim.

Lög­regla hand­tók Ya­tes svo í vikunni í borginni Mobile í Ala­bama og birti lög­regla til­kynningu um málið á heima­síðu sinni. Þar var birt mynd af Ya­tes þar sem hún sást brosandi í hand­járnum í lög­reglu­bíl.

„Hún vildi brosa og hún vildi líta vel út á myndinni,“ segir Stephen Car­lis­le, lög­reglu­stjóri í Roman For­est, í sam­tali við ABC13. „Lög­reglu­þjónninn sem hand­tók hana sagði að hún hafi viljað setja á sig vara­lit áður en myndin var tekin.“

Lög­regla segir að Ya­tes hafi sagt við dóttur sína að ef hún segði ein­hverjum frá því að þau væru ein fengi faðir hennar for­ræði yfir henni en litli bróðir hennar færi til annarrar fjöl­skyldu.

Þá kemur fram í frétt ABC að eftir að lög­regla lýsti eftir Ya­tes hafi hún sjálf skrifað um málið á sam­fé­lags­miðla og birt af sér fjölda mynda. Varð það meðal annars til þess að á­bendingar um dvalar­stað Ya­tes komu á borð lög­reglu.

Meðfylgjandi er sjónvarpsfrétt ABC13 um málið: