Raven Yates, 31 árs kona frá Texas í Bandaríkjunum, hefur verið ákærð fyrir alvarlega vanrækslu með því að skilja tvö börn sín, 12 ára stúlku og þriggja ára son, eftir eftirlitslaus á heimili sínu í um tvo mánuði.
Fréttamiðillinn Law and Crime greinir frá því að Raven hafi yfirgefið börn sín þann 8. september í fyrra og skilið þau eftir eftirlaus og án aðgangs að mat eða lyfjum.
Það var ekki fyrr en í nóvember að föður barnanna, sem búsettur er í öðru ríki, fór að gruna að eitthvað undarlegt væri á seyði, meðal annars vegna þess að dóttir hans bað hann ítrekað að panta mat og láta senda hann heim.
Lögregla handtók Yates svo í vikunni í borginni Mobile í Alabama og birti lögregla tilkynningu um málið á heimasíðu sinni. Þar var birt mynd af Yates þar sem hún sást brosandi í handjárnum í lögreglubíl.
„Hún vildi brosa og hún vildi líta vel út á myndinni,“ segir Stephen Carlisle, lögreglustjóri í Roman Forest, í samtali við ABC13. „Lögregluþjónninn sem handtók hana sagði að hún hafi viljað setja á sig varalit áður en myndin var tekin.“
Lögregla segir að Yates hafi sagt við dóttur sína að ef hún segði einhverjum frá því að þau væru ein fengi faðir hennar forræði yfir henni en litli bróðir hennar færi til annarrar fjölskyldu.
Þá kemur fram í frétt ABC að eftir að lögregla lýsti eftir Yates hafi hún sjálf skrifað um málið á samfélagsmiðla og birt af sér fjölda mynda. Varð það meðal annars til þess að ábendingar um dvalarstað Yates komu á borð lögreglu.
Meðfylgjandi er sjónvarpsfrétt ABC13 um málið: