Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, reiknar með að skila umsögn ráðuneytisins um drög að skýrslu Ríkisendurskoðunar um sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka síðar í dag. Þetta sagði hann í samtali við Fréttablaðið að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun.
Bjarni segir umsögnina sjálfa ekki vera langa en þó verði henni skilað inn. „Umsögnin sem slík er ekki löng en það verða ábendingar og eitthvað svoleiðis í henni,“ sagði hann.
Ríkisendurskoðun framlengdi í gær umsagnarfrest til 25. október að beiðni Bankasölu Ríkisins.
Ríkisendurskoðun sendi fjármála- og efnahagsráðuneyti, Bankasýslu ríkisins og stjórn hennar til umsagnar drög að skýrslu embættisins fyrir helgi og átti fresturinn að renna út á miðvikudag í þessari viku.
Í tilkynningu á fimmtudag kom fram að trúnaður gildir um skýrsludrögin og að ekki verði fjallað um þau efnislega í umsagnarferlinu, hvorki af hálfu Ríkisendurskoðunar né umsagnaraðila.
Skýrslan átti fyrst um sinn að vera tilbúin í júní, henni var síðan frestað til júlí, síðan ágúst og í september sagði ríkisendurskoðandi að búast mætti við að skýrslunni yrði skilað fyrir lok september, enda væri skýrslan á lokametrum. Í lok september frestaðist hún síðan enn og aftur.
Talsvert hefur verið deilt um framkvæmd sölunnar á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Þá hefur sætt gagnrýni að starfsfólk og hluthafar hjá fjármálastofnunum sem sáu um sölu bankans hafi sjálft fengið að kaupa hlut í bankanum.
Meðlimir stjórnarandstöðunnar vildu fá sérstaka rannsóknarnefnd á vegum Alþingis til að leggja mat á söluna en við því var ekki orðið.