þið eruð siðblind helvíti / og farið beint þangað / ég mun finna á endanum hvar þið eigið heima / hugsaðu um fjölskylduna þína áður en þið haldið áfram / ég vill ekki beita vopnum en þið gefið mér ekki færi á öðru

Þetta voru símskilaboðin sem bárust Gunnari Smára Egilssyni, formanni framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokks Íslands, fyrir tveimur dögum.

Gunnar Smári greindi upphaflega frá því inni á umræðuhóp Sósíalistaflokksins á Facebook í gær að honum hefðu borist þessar líflátshótanir. Jafnframt greindi hann frá því að annar maður hefði gert að honum aðköll fyrir utan heimili hans vegna meintra glæpa sósíalismans og hefði hrópað: „Viva Bjarni Ben!“.

Auk þessara persónuhótana varð Sósíalistaflokkurinn í gær fyrir skemmdarverkum þar sem tveir gluggar voru brotnir á félagamiðstöð Vorstjörnunnar, þar sem Sósíalistaflokkurinn hefur aðstöðu. Gunnar Smári segist gruna að annar mannanna sem hótuðu honum hafi verið að merki þótt ekki sé hægt að vita það með vissu.

Gunnar segir að hann hafi fengið að venjast hótunum og ofstæki á blaðamannsferli sínum en það sé ekki fyrr en nú sem hann hafi óttast að ofbeldismenn gætu látið kné fylgja kviði eftir hótanir sínar. „Heiftin í þessum mönnum og talsmáti, og fullvissa þeirra um að sósíalistar sé skepnur og svívirðingar, veldur því að ég óttast að þetta sé ekki bara belgingur, eins og hótanir eru oftast.“