Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu, segir óvenjulega mikið að gera hjá heilsugæslunni núna vegna umgangspesta en segir fólk þó ekki koma eins snemma og áður. Þau séu að taka á móti fólki sem þurfi að vera hjá þeim.
„Það er hellingur að gera hjá okkur. Mikið af pestum og umgangspestum í gangi. Það er inflúensan, Covid, streptókokkar og RS,“ segir Ragnheiður en í tilkynningu frá heilsugæslunni er fólk hvatt til þess að halda sig heima og skoða upplýsingar um hinar ólíku pestar á vef Heilsuveru. Tilkynningin er hluti af átaki heilsugæslunnar Heima er pest og er tilgangur þess að minna á sóttvarnir.
„Þar getur fólk fengið ráðleggingar um viðbrögð við einkennum og hvenær þörf er á að heimsækja okkur. Þessar pestir eru yfirleitt veirusýkingar sem ganga yfir en þær geta varað í þó nokkra daga. Þá er best að sýna sér mildi og láta fara vel um sig heima fyrir.“
Margir að biðja um vottorð
Ragnheiður telur að það sé þörf á að koma þessum skilaboðum út samfélagið þegar svona álag er því fólk stundum hefur ekki almennan skilning á því að það geti tekið allt að tíu daga að jafna sig á svona pest.
„Fólk er eftir tvo daga komið með nóg og vill fara út. En það er ekki nóg þegar um er að ræða veirusýkingu,“ segir Ragnheiður.
„En það er líka mikið álag vegna beiðna frá fólki um vottorð. Það eru allt að 30 á dag og það tekur auðvitað tíma fyrir starfsfólk að taka niður upplýsingar og skrá það,“ segir Ragnheiður sem biðlar til atvinnurekenda að sýna því skilning að það séu pestar í gangi og að krefja fólk ekki endilega um vottorð.
En að sjálfsögðu viljum við fá fólk með bráð veikindi og einkenni á heilsugæsluna
Hún segir í raun skilaboð átaksins þríþætt, það er að vera heima, að koma ekki of snemma á heilsugæsluna og að atvinnurekendur sýni því skilning að það sé óvenju mikið af umgangspestum í gangi
„En að sjálfsögðu viljum við fá fólk með bráð veikindi og einkenni á heilsugæsluna. Ef fólk finnur fyrr miklum andþyngslum, er búið að vera veikt lengi eða er með hita lengi. Okkur finnst þessi skilaboð vera að skila sér og þau sem skila sér á heilsugæslustöðina virkilega eiga erindi. Það er jákvætt að herferðin hafi skilað því,“ segir Ragnheiður.
Sem hluti af átaki heilsugæslunnar ætla íbúar á hjúkrunarheimilinu Grund við Blómvallagötu að sauma út með krosssaumi í dag „Heima er pest“ og „Ekki fá niðurgang í bílnum“. Verkefnið er hluti af auglýsingaherferðinni „Heima er pest“ sem Heilsugæslan stendur fyrir en henni er ætlað að hvetja fólk sem er með almennar umgangspestir, eins og flensu eða ælupest, til að halda sig heima til að draga úr því mikla álagi sem verið hefur á heilsugæslustöðvum og einnig til að sporna við smitum á milli manna í þessu sýkingafári.