„Eiganda Elliðaárvirkjunar ber að þakka fyrir 100 ára nytjar Elliðaánna, taka til eftir sig og skila dalnum eins nálægt því ástandi sem hann var í fyrir virkjun og kostur er,“ skrifar Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, OR, í grein um Árbæjarlón í Fréttablaðinu í dag. Árbæjarlón var tæmt þann 29. október.

Fylla þurfi í lónið

Björn Gíslason, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Björn Gíslason, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sem á sæti í stýrinefnd um Elliðaárdalinn, er á öðru máli. „Það er ekkert annað í stöðunni en að Orkuveitan verður látin fylla aftur í lónið,“ segir Björn. Stýrihópurinn ræddi í gær ákvörðun OR um að tæma Árbæjarlón varanlega. „Þessi gjörningur er ekki samkvæmt gildandi deiliskipulagi, því var þeim óheimilt að taka þessa ákvörðun,“ segir Björn um niðurstöðu fundarins.

Ekki heimilt að trufla náttúrulegt rennsli

Bjarni segir hins vegar að Orkuveitan telji að henni sé ekki heimilt að trufla náttúrulegt rennsli Elliðaánna nú þegar rekstur Elliðaárstöðvar hefur verið lagður af.

„Að safna upp vatni ofan við manngerða stíflu veldur hættu fyrir íbúa, sérstaklega að vetri þegar lónið leggur og fyrir fólk, náttúru og eignir neðan stíflunnar allt árið,“ segir Bjarni. „Margvísleg náttúufræðileg rök styðja að hætt sé að trufla rennsli Elliðaánna, nú þegar rekstur Elliðaárstöðvar hefur verið lagður af og þörf fyrir lónið vegna rafmagnsvinnslu er ekki lengur fyrir hendi.“

Svæðið eins og það lítur út í gær.
Fréttablaðið/Valli

Þá hafi Hafrannsóknastofnun lagt það til við OR um árabil að Árbæjarlónið verði tæmt endanlega. Vísar Bjarni svo í minnisblað Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur frá 9. nóvember. „Þar sem ekki er þörf fyrir stífluna þegar rafmagnsframleiðslu er hætt er það því liður í að færa árnar aftur til upprunalegs horfs að hætta að takmarka rennsli þeirra með stíflumannvirki.“