Marcos Echartea, 23 ára Kali­forníu­búi, hefur engin merki sýnt um eftir­sjá eftir að hann skaut tíu mánaða barn í höfuðið í borginni Fresno á sunnu­dag. Þetta segir yfir­maður lög­reglunnar í borginni.

Echartea var hand­tekinn skömmu eftir að hann hleypti þremur skotum af í áttina að mæðgunum Deziree Menagh, 18 ára, og Fayth Per­cy, tíu mánaða.

Að sögn Menagh hafði Echartea sýnt henni mikinn á­huga en hann ekki verið gagn­kvæmur. Skot­á­rásin hafi átt sér stað eftir teiti í Fresno aðfaranótt laugardags þar sem þau voru bæði stödd. Þar hafi Echartea reynt að fanga at­hygli Menagh í­trekað og endað á því að þvinga hana til að sitja í kjöltu hans.

Streittist hún á móti við það og á­kvað að láta sig hverfa, nánar til­tekið í bíl vinar síns þar sem hin unga Fayth var. Þau hafi brunað í burtu en séð Echartea hlaupa á eftir þeim, vopnaðan skamm­byssu.

Hann hafi hleypt af þrí­vegis, líkt og fyrr segir, en eitt skotið fór í gegnum rúðu á bílnum og hafnaði í hliðina á höfði ungu stúlkunnar. Á­stand hennar er al­var­legt en stöðugt eftir að­gerð sem hún gekkst undir en þar voru brot úr kúlunni fjarlægð.

Lög­reglan í Fresno hefur greint frá því að Echartea beri einnig á­byrgð á skot­á­rás sem átti sér stað hinn 27. maí síðast­liðinn við hús kærasta fyrr­verandi kærustu hans. Þar hafi hann verið hárs­breidd frá því að skjóta eins árs barn sem statt var í í­búðinni.

„Það er deginum ljósara að Marcos Echartea skeytir engu um manns­líf, ekki einu sinni unga­barna,“ er haft eftir lög­reglu­stjóranum Jerry Dyer í Fresno.

Frétt BBC um málið.