Halldór Kristjánsson, framkvæmdastjóri ferðaþjónustufyrirtækisins Nordic Luxury og umboðsmaður kanadísku hjónanna sem keyptu Horn, segir aðgengi að Skessuhorni ekki verða skert. Jörðin verði notuð sem einkaheimili.
„Allir sem vilja labba á þetta fjall geta gert það áfram,“ segir Halldór. Eftir að Fréttablaðið greindi frá því að jörðin hefði verið keypt hefur fólk lýst yfir áhyggjum af því að aðgengi að fjallinu verði skert, þar á meðal formaður SAMÚT, samtaka útivistarfélaga.
Halldór segir að almannarétturinn verði að sjálfsögðu virtur áfram. Það eina sem gerð verði athugasemd við, komi fólk í stríðum straumum, sé ef bílum verður lagt fyrir utan bæinn. „Það eru engin áhöld um að skerða eitt eða neitt þarna,“ segir Halldór og að umræðan sé blásin upp úr öllu valdi.
Hjónin sem keyptu jörðina eru búsett í borginni Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og hafa nokkrum sinnum komið til Íslands og ferðast um landið.
Halldór segir að þau hyggist ekki nýta jörðina undir ferðaþjónustu eða neitt slíkt. „Þau eru að byggja sér hús sem þau ætla að nota stóran hluta af árinu fyrir sjálf sig,“ segir hann. Hugsanlegt sé að einhver hluti húsanna, sem telja samanlagt 1.700 fermetra, verði leigður út en ekkert sé ákveðið með það. „Það eru ekki áform um uppbyggingu á einu né neinu nema húsakosti fyrir þau.“
