Innlent

Skertar bætur fyrir að sýna ekki aðgát við hjólreiðastíg

Tryggingamiðstöðinni hefur verið gert að greiða konu á fimmtugsaldri bætur fyrir hjólreiðaslys árið 2015. Konan var á gangi í Borgartúni þegar að hjólreiðamaður hjólaði á hana með þeim afleiðingum að hún er með 10 prósent örorku. Tryggingamiðstöðin hafði áður neitað að borga henni bætur.

Héraðsdómur Reykjavíkur mat það sem svo að konan ætti að þekkja vel til aðstæðna, og vita að umferð væri mikil við Borgartún, þar sem hún fór oft til sjúkraþjálfa. Mynd/Samsett

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur úrskurðað Tryggingamiðstöðina bótaskylda gagnvart konu á fimmtugsaldri eftir að hjólreiðamaður, sem tryggður var hjá þeim, hjólaði á hana við Borgartún í október 2015. Tryggingamiðstöðin þarf þó einungis að greiða helming líkamstjóns þar sem konan var ekki talin hafa sýnt nægilega aðgát við hjólreiðastíginn. Konan greindist með 10 prósent örorku eftir slysið.

Skullu harkalega saman í Borgartúni

Tildrög málsins eru þau að konan var á leið til sjúkraþjálfara í Borgartúni snemma morguns, í október árið 2015. Lá leið konunnar yfir hjólastíg þegar hún og hjólreiðarmaður sem átti leið hjá, skullu harkalega saman. 

Konan kvaðst í fyrstu ekki hafa séð hjólreiðamanninn koma og því ekki vitað fyrr en þau skullu saman. Fyrir dómi sagðist hún hins vegar hafa litið til hægri og séð hjólreiðamanninn koma hjólandi. Hún kvaðst hafa talið að maðurinn hefði séð sig og mat sig hafa nægan tíma til að ganga yfir stíginn. Maðurinn sagðist sjálfur lítið sem ekkert eftir atvikinu, en hann fékk töluvert höfuðhögg í slysinu. 

Við komu á bráðamóttöku kom í ljós að konan hafi fengið hnykk í bakið og högg á vinstra hné, þegar hún kastaðist niður í götuna. Hún var þá tognuð og með ofreynslu á aðra ótilgreinda hluta lendahryggs og mjaðmagrind, sem og tognun og ofreynslu á öðrum hluta hnés. Var hún send heim og sagt að leita til heimilislæknis. Læknirinn greindi hana með varanlegan miska upp á 12 stig og varanleg örorka 10 prósent.

Gat ekki sýnt fram á að hjólreiðarmaðurinn hefði sýnt gáleysi

Hjólreiðamaðurinn sem skall saman við konuna var með ábyrgðartryggingu hjá Tryggingamiðstöðinni  og hafði lögmaður konunnar því samband við Tryggingamiðstöðina. Með bréfi í maí árið 2016 hafnaði Tryggingamiðstöðin þó greiðsluskyldu sinni með vísan til þess að slysið yrði ekki rakið til atvika sem vátryggingartaki bæri ábyrgð á í lögum. 

Skaut konan þessari afstöðu til úrskurðarnefndar vátryggingarmála, en komst nefndin að þeirri niðurstöðu að tjón hennar væri ekki bótaskylt úr ábyrgðartryggingu vátryggingartaka. Því til stuðnings var einkum vísað til þess að ekki hefði verið sýnt fram á að vátryggingartaki hefði sýnt af sér gáleysi í umrætt sinn.


Takmörkuð gögn og hraði hjólsins óljós

Aðila greindi því á um hvort viðurkenna bæri bótaskyldu Tryggingamiðstöðvarinnar vegna líkamstjóns sem konan varð fyrir. „Takmarkaðra gagna nýtur um aðdraganda slyssins og eru atvik málsins að ýmsu leyti óljós. Liggur þannig ekki fyrir hvort stefnandi og vátryggingartaki hafi skollið saman á þeim hluta stígsins sem var ætlaður fyrir hjólreiðar eða á þeim hluta sem var ætlaður gangandi vegfarendum,“ segir í dómnum. 

Mat dómsins var að konunni, sem gangandi vegfaranda sem þurfti að fara yfir hjólreiðastíg, var skylt að sýna sértaka aðgát þar sem henni ætti að vera kunnugt um tvískiptingu stígsins, sem sagt í hjólreiða og göngustíg. Af hálfu Tryggingamiðstöðvarinnar var því haldið fram slysið verði fyrst og fremst rakið til aðgæsluleysis konunnar sjálfrar.


Fór oft í sjúkraþjálfun og átti að vera kunnugt um tvískiptingu stígsins 

„Þykir því rétt að taka til skoðunar hvort skerða beri bótaábyrgð stefnda vegna meðábyrgðar stefnanda. Að mati dómsins var stefnanda sem gangandi vegfaranda sem þurfti að fara yfir hjólreiðastíg skylt að sýna sérstaka aðgát. Henni var kunnugt um tvískiptingu stígsins og liggur fyrir að hún hafði oft farið í sjúkraþjálfun í Borgartún 6. Hún kvaðst sjálf fyrir dómi hafa séð vátryggingartaka koma hjólandi og taldi hann hafa verið á umtalsverðum hraða. Hún ákvað að ganga þvert yfir stíginn til að komast að greiðsluvél bílastæðagjalda fremur en að bíða eftir því að hann hjólaði fram hjá,“ segir í dómnum. 

Þar af leiðandi var það niðurstaða dómsins að bótaábyrgð Tryggingamiðstöðvarinnar var einungis helmingur líkamstjóns konunnar og að greiða henni 800.000 krónur í málskostnað.  


Dóminn má lesa í heild sinni hér.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Innlent

Skuldagrunnur á teikniborði eftirlitsins

Innlent

Meirihluti Íslendinga óttast afleiðingar loftslagsbreytinga

Innlent

Kostar 1,3 milljarða að lagfæra fyrir nýja ferju

Auglýsing

Nýjast

Segir fyrirferð RÚV líklega ástæðu úttektar

Handtóku tvo katalónska bæjarstjóra

Dómur í Bitcoin-málinu kveðinn upp í dag

500 milljóna endurbætur vegna húsnæðis mathallar

Ósáttir stóðu vörð um stjórn Theresu May

Tæplega 1.600 um­sagnir um sam­göngu­á­ætlun

Auglýsing