Þótt COVID-19 sé fyrst og fremst líkamlegur sjúkdómur, er hann líka plága sem lagst hefur á framkvæmd lýðræðis, mannréttindavernd og vandaða stjórnarhætti,“ að mati tveggja prófessora við lagadeild Háskólans í Hong Kong. Í greininni fjalla fræðimennirnir Stephen Thomson og Eric C. Ip um stjórnskipunarplágu sem breiðst hefur út um heiminn og er afleiðing af sóttvarnaaðgerðum ríkja heims.

Umrædd plága lýsir sér í misnotkun eða hættu á misnotkun þess neyðarréttar sem heimsfaraldurinn færir stjórnvöldum, til að auka völd sín og takmarka mannréttindi borganna, með tilheyrandi ógn við þá grundvallarhugmynd nútíma stjórnskipunar lýðræðisríkja að borgararnir séu frjálsir og ríkisvaldið að sama skapi takmarkað. Hættan á alvarlegum afleiðingum þessa er mun meiri en áður því að takmörkun frelsis og réttinda manna nái nú yfir heimsbyggðina alla.

Geti skapað djúpa og langvarandi lýðræðis- og mannúðarkreppu

Það er niðurstaða prófessoranna að ástæðulaus frávik frá lýðræðislegum stjórnarháttum, víðtækar takmarkanir á athafnafrelsi og grundvallarmannréttindum og brotthvarf virðingar fyrir mannlegri reisn geti skapað djúpa og langvarandi lýðræðis- og mannúðarkreppu um heim allan með engu minni skaða fyrir heimsbyggðina en COVID-sjúkdómurinn sjálfur.

Í greininni er harðlega gagnrýnt að nánast öll heimsbyggðin hafi fylgt því fordæmi sem Kínverjar settu um sóttvarnaaðgerðir sínar í Wuhan í desember og janúar síðastliðnum og nýtt sér mikinn ótta íbúa og að sama skapi ríkan almennan vilja til að lúta ströngum sóttvarnaráðstöfunum.

Skapað hættuleg fordæmi

Hinar fordæmalausu aðgerðir sem ríkisstjórnir um allan heim hafa gripið til hafi skapað stórhættulegt fordæmi fyrir þær plágur og hamfarir sem án efa bíða okkar í framtíðinni, en hefur hingað til verið hægt að ráða niðurlögum án þess að fórna því lýðræðis- og mannréttindafyrirkomulagi sem siðaðar þjóðir hafa þróað.

Í greininni er meðal annars vísað til Samnings Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og Mannréttindasáttmála Evrópu en í þeim báðum eru ákvæði sem heimila að vikið sé frá þeim réttindum sem samningunum er ætlað að vernda, til dæmis ef alvarleg ógn steðjar að heilsu landsmanna.

Dæmi um að aðgerðir þjóni ekki nauðsynlegum sóttvarnatilgangi

Umfang íþyngjandi aðgerða þurfi hins vegar að vera í réttu samhengi við ógnina og beita þurfi stífum mælikvarða á nauðsyn þeirra bæði hvað varðar gildistíma hverrar aðgerðar, landsvæðis sem hún nær til og umfang frelsis- og mannréttindaskerðinga sem af aðgerðunum leiða. Þá þurfa aðgerðirnar að miða sérstaklega að því að hefta útbreiðslu faraldursins, það er að segja beinast að því markmiði sem þeim er ætlað að ná.

Tekin eru fjölmörg dæmi í greininni um aðgerðir sem þjóni engum sérstökum eða nauðsynlegum sóttvarnatilgangi, allt frá banni við útihlaupum í Frakklandi til stimplunar pólitískra slagorða á vinstri hendi allra sem sættu sóttkví á Indlandi, opinber birting lista yfir alla sem sæta eiga sóttkví í Suður-Kóreu og ótímabundin frestun þingkosninga í Ungverjalandi.

Þá hefur fjölmiðlafrelsi verið verulega skert víða, en að mati höfunda greinarinnar gegna fjölmiðlar mikilvægu hlutverki á neyðartímum, ekki aðeins við miðlun upplýsinga um gang faraldursins heldur einnig til að veita lýðræðislega kjörnum fulltrúum aðhald á tímum fordæmalausrar skerðingar á frelsi og réttindum borgaranna.

Geti veikt lýðræðisstofnanir

Í greininni er sérstaklega fjallað um þróun frá lýðræðislegum stjórnarháttum og tilhneigingu til að færa sérfræðingum ákvörðunarvald um mjög íþyngjandi aðgerðir, oft án allrar aðkomu lýðræðislega kjörinna þjóðþinga. Þessi tilhneiging sé ekki aðeins til þess fallin að veikja lýðræðisstofnanir ríkja og lýðræðismenningu þeirra heldur ýti hún einnig undir rugling og óvissu meðal borgaranna, sem átta sig síður á hvort hátternisreglur feli í sér tilmæli eða valdboð.

Þá er sú aðferð stjórnvalda í mörgum ríkjum að „fylgja vísindunum“ mjög gagnrýnd í greininni. Í fyrsta lagi hafi vísindaleg þekking á viðfangsefninu ekki verið ýkja sterk þegar byrjað var að beita íþyngjandi sóttvarnaaðgerðum snemma í vor. Í öðru lagi hafi í mörgum tilvikum læknavísindin ein verið með í ráðum og hvorki leitað til hagfræðinga, sérfræðinga í mannréttindum, sálfræðinga né sérfræðinga á öðrum mikilvægum sviðum.

Í þriðja lagi verði mjög óljóst hver eigi að axla ábyrgð á jafn íþyngjandi aðgerðum fyrir borgarana þegar lýðræðislegir fulltrúar hafi falið sérfræðingum, sem þurfa ekki að axla lýðræðislega ábyrgð á ákvörðunum sínum, að stýra fyrir sig.

Borgarar líklegir til að styðja valdboð á kostnað réttinda samborgara

Stjórnvöld þurfa einnig að vera viðbúin því að almenningur rísi reiður upp gegn réttindum samborgara sinna. Í greininni er vísað til mikillar reiði borgara í Bretlandi út í samborgara sína og er það tengt ógegnsæjum og óskýrum sóttvarnareglum sem borgurum reyndist erfitt að átta sig á. Óvissan leiddi þá til þess að fólk sakaði hvert annað opinberlega um sóttvarnabrot með tilheyrandi opinberri niðurlægingu fyrir þá sem fyrir árásunum urðu. Í ofanálag hvatti lögreglustjóri almennu lögreglunnar til þess að fólk skammaði samborgara sína sem ekki notuðu grímur í verslunum og hellti með því olíu á eld óöryggis og ótta borgaranna.

Vísað er til þess í greininni að borgarar séu almennt frekar líklegir til að styðja valdboð á kostnað réttinda samborgara sinna, ekki síst þegar þeir standa frammi fyrir hættulegum vágesti. Þess vegna dugi ekki að lýðræðislegar stofnanir ríkja hafi sterkar varnir gegn þeirri freistni að grípa til valdboðsstefnu á neyðartímum, heldur þurfi þær einnig að geta brugðist við ófyrirséðum sálrænum viðbrögðum almennings.