„Við vorum bara að horfa á allar þessar skerðingar endalaust“, segir Bryndís Hagan Torfadóttir, sem situr í stjórn öldrunarráðs VR og vísar til þess þegar hún tók þátt í að stofna Gráa herinn sem stóð að fjölmennun útifundum og fleiru til málsbóta eldri borgurum og skerðingum á lífeyri þeirra. Hún er ein af viðmælendum í þættinum KJÖR ALDRAÐRA á Hringbraut á sunnudaginn 12. September þar sem skerðingar lífeyris ber mjög á góma.

Um skerðingarnar segir Ingibjörg H. Sverrisdóttir, formaður Félags eldri borgara að ekkert bóli á úrbótum. „Því miður um síðustu áramót þá hækkuðu skerðingarnar í staðinn fyrir að lækka.“

Bryndís Hagan Torfadóttir
Mynd/Hringbraut

Bryndís bendir á að fólk fari úr landi til að skrimta fjarri fjölskyldu sinni. „Fólk er bara engan veginn að lifa á þessu, við vitum um marga Íslendinga, og það eru margar ástæður fyrir því að fólk á ekki íbúð eða á ekki húsnæði, sem situr uppi með þennan pínulitla lífeyri. Þú getur bara ekki leigt - og fólk býr niðrá Spáni eingöngu vegna þess að það getur þó skrimt þar og komist af.“

Sendi alltaf peningana heim til að spara

„Ég er búin að vinna hjá Scandinavian Airlines í 49 ár og hér og þar um heiminn og ég valdi þá að senda alltaf allar greiðslu heim til VR svo ég er í raun og veru búin að vera í VR frá 1.apríl 1970,“ bendir Bryndís á og að það hafi verið hennar eigin aukasparnaður sem hún fær ekki notið nú nema lífeyrir hennar verði skertur.

Ragnar Þór Ingólfsson, Stefán Ólafsson og Helgi Pétursson
Mynd/Hringbraut

Þjóðin eldist

Í þættinum er dregin upp mynd af kjörum þessa sívaxandi þjóðfélagshóps með aðstoð sérfræðinga og formanna í hagsmunahópum.

Viðmælendur þáttarins ásamt Bryndísi og Ingibjörgu eru Stefán Ólafsson, prófessor, Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR og Helgi Pétursson, formaður Landssambands eldri borgara.

KJÖR ALDRAÐRA kl. 20:30 á sunnudagskvöld á Hringbraut