Á sunnudaginn tekur gildi sumaráætlun og síðari hluti aðhaldsaðgerða Strætó. Frá þessu er greint í tilkynningu frá Strætó en breytingarnar eiga um leiðir 6, 19 og 28 og munu samkvæmt því leiðir 19 og 28 frá sunnudegi aka á hálftíma fresti í stað 15 mínútna fresti og mun leið 6 aka á fimmtán mínútna fresti í stað tíu mínútna fresti.
Samkvæmt tilkynningu Strætó tekur sumaráætlunin gildi örlítið fyrr þetta árið vegna aðhaldsaðgerða þeirra en samkvæmt þeim verða síðustu kvöldferðir klipptar af leiðum 1, 2, 3, 4, 5, 6 og 18.
Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, segir í samtali við Fréttablaðið að það eina sem geti breytt því að þessar breytingar taki gildi er innspýting fjármagns í rekstur Strætó en þau komu mjög illa út úr Covid-faraldrinum.
„Þetta er ekki gott. Það þarf aukið fé frá ríkinu eða yfirvöldum. Það eru miklar kostnaðarhækkanir og svo hafði Covid áhrif en tekjumissirinn var mikill,“ segir Jóhannes um það hvað þurfi til að koma í veg fyrir þessar breytingar.
Spurður hvort að hann eigi von á því að það muni koma inn auka fjármagn segir hann það óvíst en að Strætó sé í stöðugu samtali við yfirvöld.
„Við erum alltaf í samtali en við erum alltaf að reyna og vonandi skilar það einhverju. En það verður að koma í ljós.“
Hann segir að það hafi verið reynt að hafa sem minnst áhrif á notendur með því að taka af seinustu ferðunum.
Hann segir að mögulega verði hægt að snúa þessu við í haust ef að það kemur meira fjármagn en annars geti notendur átt von á því að þessar breytingar gildi til ársloka.
„Ef hagurinn vænkast ekki þá getur vel verið að við látum þetta gilda út árið. Það á eftir að koma í ljós.“

Fyrri hluti tók gildi á sunnudag
Tilkynnt var um fyrri hluta aðhaldsaðgerða fyrir helgi en samkvæmt þeim hætta tíu leiðir, 7, 11, 12, 15, 19, 22, 23, 28, 35 og 36 fyrr á kvöldin og leið 24 ekur á hálftíma fresti á háannatíma í stað þess að að aka á kortersfresti. Þessar breytingar tóku gildi síðasta sunnudag.
Hér að neðan má sjá hvaða ferðir verða klipptar af í seinni aðhaldsaðgerðum Strætó sem taka gildi á sunnudag.
Leið 1
Seinasta ferð frá Klukkuvöllum til Hlemms fer kl. 23:35 í staðinn fyrir kl. 00:05
Seinasta ferð frá Hlemmi til Klukkuvalla fer kl. 23:43 í staðinn fyrir kl. 00:13
Leið 2
Seinasta ferð frá Mjódd til Hlemms fer kl. 22:52 í staðinn fyrir kl. 23:22
Seinasta ferðin frá Hlemmi til Mjóddar fer kl. 23:35 í staðinn fyrir kl. 00:05. (Á laugardögum og sunnudögum fer síðasta ferðin kl. 23:33)
Leið 3
Seinasta ferð frá Mjódd til Hlemms fer kl. 23:21 í staðinn fyrir kl. 23:51 á virkum dögum og 00:21 á laugardögum.
Seinasta ferð frá Hlemmi til Mjóddar fer kl. 23:24 í staðinn fyrir kl. 23:54.
Leið 4
Seinasta ferð frá Hlemmi til Mjóddar fer kl. 23:18 í staðinn fyrir kl. 23:48
Seinasta ferð frá Mjódd til Hlemms fer kl. 23:21 í staðinn fyrir kl. 23:51
Leið 5
Seinasta ferð frá Norðlingaholti til Nauthóls fer kl. 23:14 í staðinn fyrir kl. 23:44.
Seinasta ferð frá Nauthól til Norðlingaholts fer kl. 23:36 í staðinn fyrir kl. 00:06.
Leið 6
Seinasta ferð frá Egilshöll til Hlemms fer kl. 23:18 í staðinn fyrir kl. 23:48.
Seinasta ferð frá Hlemmi til Egilshallar fer kl. 23:37 í staðinn fyrir kl. 00:07.
Leið 18
Seinasta ferð frá Hlemmi til Spangar fer kl. 23:16 í staðinn fyrir kl. 23:46.
Seinasta ferð frá Spöng til Hlemms fer kl. 23:09 í staðinn fyrir kl. 23:39. (Á laugardögum og sunnudögum fer síðasta ferðin kl. 23:06)