Skorin verður upp herör gegn því að heilbrigðisstofnanir ráði ófaglært starfsfólk í störf sem sjúkraliðar ættu að gegna. Þetta var meðal þess sem samþykkt var á fulltrúaþingi Sjúkraliðafélags Íslands sem haldið var fyrir helgi.

Sandra B. Franks, formaður félagsins, segir misbresti hvað varðar ráðningar í störf sjúkraliða. „Stjórnendur, til dæmis hjúkrunarheimila, vita vel af því að bannað er að ráða aðra en sjúkraliða til sérhæfðra umönnunar- og hjúkrunarstarfa, nema áður hafi verið auglýst eftir sjúkraliðum,“ segir Sandra. „Stofnanir eru mögulega að reyna að spara við sig með því að ráða ódýrara vinnuafl, en þær mega það ekki nema búið sé að reyna til þrautar að fá sjúkraliða. Við þurfum að tryggja að þetta verði aldrei gert.“

Þá var samþykkt ályktun þar sem gerð er krafa um að hið opinbera marki sér stefnu um hversu margir sjúkraliðar eiga að vera við störf á hverjum tíma. Sandra segir sjúkraliða óánægða með hvernig forgangsrétturinn hefur verið sniðgenginn. „Þetta er líka hagsmunamál fyrir sjúklinga og aðstandendur, því það kemur mjög vel fram í úttektum bæði á Íslandi og erlendis að skýr tengsl eru á milli lélegra gæða og lágs hlutfalls fagmenntaðra við hjúkrun og umönnun. Við þurfum einfaldlega fleiri sjúkraliða.“

Áhyggjur eru meðal sjúkraliða af að mönnun á hjúkrunarheimilum sé ekki í samræmi við það sem þarf til að viðhalda gæðum þjónustunnar. „Hjúkrunarheimilin þurfa mörg hver á fleiri sjúkraliðum að halda þar sem sjúkraliðar eru besta stéttin til að sinna fólkinu sem þar er.“Sandra segir að í framtíðinni muni þörfin fyrir sjúkraliða stór­auk­ast. „Áhersla á að færa þjónust­una heim mun þróast með sambæri­legum hætti og á hinum Norður­löndunum, en þar eru fjár­veit­ingar til heimahjúkrunar og heima­þjónustu átta til fimmtán sinn­um hærri en á Íslandi, þegar mið­að er við verga landsframleiðslu,“ segir Sandra.

Þar, eins og hér á landi, heldur meðalævin áfram að lengjast og þörf fyrir hjúkr­un og umönnun aldraðra vex að sama skapi. Sandra sér mörg tæki­færi til að efla heimahjúkrun. „Það er í raun langódýrasta leiðin og öll viljum við vera heima sem lengst. Það felst í því mikil hagræðing fyrir samfélagið að efla heimahjúkrun og heimaþjónustuna.“Í kjarasamningum við ríkið gerði félagið kröfu um að sett yrði á fót nám fyrir sjúkraliða á háskólastigi, og næsta haust verður sett á fót diplómanám við Háskólann á Akureyri sem sjúkraliðar geta sinnt í fjarnámi. „Það hefur verið rík krafa hjá okkar félagsmönnum að svona nám verið sett á fót, við gáfum okkur ekki við samningaborðið,“ segir Sandra.

Samkvæmt könnun meðal félagsmanna hefur minnst fjórðungur áhuga á náminu. „Með því teljum við að opnist tækifæri fyrir sjúkraliða til að sérhæfa sig og eiga þá kost á framgangi í starfi og betri launum. Sú barátta hefst fyrir alvöru þegar byrjað verður að útskrifa.“ Sandra segir að ein leiðanna til að ráða bót á mönnunarvandanum sé að fela sjúkraliðum meiri ábyrgð og aukið stjórnunarhlutverk á tilteknum sviðum.