Samtök Reyk­vískra skemmti­staða (SRS) for­dæma at­burðinn sem átti sér stað á skemmti­staðnum Banka­stræti Club í síðustu viku, þar sem hópur manna ruddust inn á staðinn vopnaðir hnífum og stungu þar þrjá menn í­trekað. Sam­tökin for­dæma allt of­beldi og vopna­burð. Þetta kemur fram í yfir­lýsingu frá stjórn Sam­taka Reyk­vískra skemmti­staða.

„Ljóst er að þegar slíkir at­burðir verða er sam­fé­laginu brugðið. Á því eru skemmti­staða­eig­endur engin undan­tekning. SRS fagnar því aukna eftir­liti lög­reglu sem nú er boðað og munu gera allt sem í sínu valdi stendur til þess að tryggja öryggi gesta sinna,“ segir í yfir­lýsingunni.

Þegar slíkir at­burðir eigi sér stað sé mikil­vægt að allar stofnanir sam­fé­lagsins geri allt sem í þeirra valdi stendur til þess að tryggja öryggi borgaranna.

„Ís­lenskt sam­fé­lag hefur góða sögu að segja í sam­fé­lags­legum og sam­eigin­legum á­taks­verk­efnum líkt og dæmin sanna. Mikil­vægt er að um­ræðan fari fram á yfir­vegaðan hátt og sé byggð á stað­reyndum. Nú berast fregnir af því að vopna­burður sé orðinn al­gengari en áður var. Það er gríðar­lega al­var­legt mál,“ segir í yfir­lýsingunni.

Nú þurfi ís­lenskt sam­fé­lag, skóla­kerfið, for­eldrar, stjórn­málin og borgararnir að leggjast á eitt um úr­bætur, og muni skemmti­staða­eig­endur ekki láta sitt eftir liggja í þeim efnum.