Fyrir átta árum hófust Magdalena Sigurðardóttir og Heba Hertervig, arkitektar hjá VA arkitektum, handa við að teikna skóla, bókasafn, sundlaug og íþróttamiðstöð í Úlfarsárdal í Reykjavík.

Byggingarnar eru nú að mestu tilbúnar og hafa verið teknar í notkun. Um er að ræða átján þúsund fermetra gólfflöt og var kostnaður við framkvæmdirnar rúmlega þrettán og hálfur milljarður.

„Þetta er stærsta og dýrasta framkvæmd sem Reykjavíkurborg hefur farið í,“ segir Magdalena. Þær Heba eru sammála um að starf arkitektsins sé fjölbreytt og að þegar farið sé í stórar framkvæmdir líkt og í Úlfarsárdal sé það ólíkt því að teikna til að mynda íbúð eða sumarbústað.

„Maður þarf alltaf að fara í smá nám fyrir hvert verkefni. Þegar þú ert að teikna skóla þá þarftu allt í einu að vita allt um skólastarfið og hvað felst í því. Svo þurfum við að vera meðvitaðar um að skóli í dag sé ekki endilega það sama og skóli eftir tíu ár,“ segir Magdalena og Heba tekur undir.

„Það var sérstaklega skemmtilegt í sambandi við bókasafnið,“ segir Heba. „Við tókum þátt í samkeppni varðandi það árið 2013 eða 2014 og unnum hana. Í kjölfarið fengum við gögn til að vinna eftir og svo tveimur til þremur árum seinna, þegar verkefnið var komið aðeins á skrið, þá voru forsendurnar orðnar allt öðruvísi. Bókasöfn og hugmyndafræðin á bak við þau hefur breyst og þau eru orðin meiri samfélagsrými,“ bætir hún við.

„Þá bara breyttum við og bókasafnið varð betra í kjölfarið,“ segir Magdalena. Bókasafnið í Úlfarsárdal er ólíkt mörgum öðrum bókasöfnum landsins. Þar eru ekki einungis borð og stólar sem hægt er að sitja við og lesa og læra. Til að mynda er hægt að sitja í gluggunum og horfa yfir fótboltavellina fyrir utan.

„Þetta er hugsað sem staður fyrir krakkana og fólkið í hverfinu til að hittast og kynnast,“ segir Magdalena.

„Við stílum upp á það að reyna að draga unglingana hérna inn líka með því að hafa þetta svona aðgengilegt. Félagsmiðstöðin þeirra og matsalurinn í skólanum eru þeir hlutar skólans sem eru næstir bókasafninu sem getur myndað skemmtilega stemningu hérna og tengt fólk saman,“ segir Heba.

Stiginn í miðrýminu sem tengir saman sundlaugina, bókasafnið og Dalskóla er afar tignarlegur. Mikil dagsbirta er í húsinu og segjast Magdalena og Heba leggja mikla áherslu á góð birtuskilyrði í hönnun sinni.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Í berjamó á þakinu

Bókasafnið, skólinn, leikskólinn, sundlaugin og íþróttahúsið eru öll tengd og innangengt er á milli allra byggingarhlutanna. Undir torginu fyrir utan bókasafnið og sundlaugina eru íþróttasalir og sjá þær Heba og Magdalena fyrir sér að skemmtilegir viðburðir geti verið haldnir á torginu í framtíðinni.

Á þaki skólans eru lyngþökur og muna Magdalena og Heba einn skemmtilegan dag á framkvæmdastigi skólans þegar iðnaðarmenn sem unnu við hann fóru í berjamó á þakinu. „Það er skemmtilegast þegar það kemur eitthvað óvænt upp,“ segir Heba.

„Einn daginn þegar við vorum að vinna í öðrum áfanga fór ég upp á þak og þar voru iðnaðarmenn að vinna á þakinu. Þeir voru allir bláir í kringum munninn og ég skildi ekki alveg hvað var að gerast. Þá höfðu þeir fundið krækiber í lyngþökunum og voru bara búnir að vera að tína berin beint upp í sig,“ segir Magdalena og þær Heba hlæja báðar.

Landslagsarkitektar hönnuðu skólalóðina við Dalskóla ásamt Magdalenu og Hebu. Ofan á þaki hússins eru lyngþökur þar sem sprottið hafa krækiber.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Stoltar af stóra verkefninu

Þjónustu- og menningarmiðstöðin í Úlfarsárdal var formlega tekin í notkun þann 11. desember. Heba og Magdalena segja það ólýsanlega tilfinningu að sjá verkið sem þær hafa unnið að í átta ár fyllast af fólki og vera í daglegri notkun.

„Við erum mjög stoltar af þessu,“ segir Magdalena. „Þetta er alveg yndislegt,“ segir Heba. „Það sem er svo geggjað við það að gera svona verk er að maður á allt í einu hlutdeild í lífi fólksins sem er að nota bygginguna,“ segir Magdalena. „Svo er það aftur þetta óvænta, þegar einhver notar eitthvað á óvæntan hátt, á hátt sem við vorum ekki búnar að sjá fyrir,“ bætir hún við.

„Já, hér er allt svo nýtt og það á margt óvænt eftir að koma í ljós. Ég man vel eftir því þegar ég vann að ylströndinni í Nauthólsvík þar sem var settur upp veggur með steyptum línum sem allir krakkar klifra svo í, hann er orðinn hálfgerður klifurveggur,“ segir Heba en hún mun einnig starfa við breytingar sem fyrirhugaðar eru á næstunni í Nauthólsvík.

„Þessi flötur, að hafa skóla, sundlaug og bókasafn í sama húsinu, býður upp á alls kyns tækifæri fyrir óvænta notkun á húsinu. Það verður forvitnilegt að sjá hvort bekkjarkvöldin verði haldin í innilauginni til dæmis,“ segir Heba.

Í skólanum eru víðs vegar rými þar sem krakkarnir geta sest niður í friði og ró, líkt og sjá má hér inni í veggnum. Mikil áhersla er lög á góða hljóðvist í hönnun skólans, viðurinn á veggjunum er til þess fallinn að auka hana.
Mynd/Gunnar Sverris

Konur í fararbroddi

Spurðar hvort algengt sé að tvær konur séu saman yfir eins stóru verkefni og Heba og Magdalena hafa farið fyrir í Úlfarsárdal segja þær arkitektúr vera að verða meiri kvennastétt en áður. „Við erum mjög stoltar af því að vera tvær konur í fararbroddi en það er fullt af strákum með okkur í teyminu og ég held að það sé gott að hafa hópinn sem fjölbreyttastan,“ segir Magdalena.

„Við höfum setið marga fundi þar sem við erum einu konurnar því byggingariðnaðurinn er mjög karllægur heimur,“ segir Heba.

Nú þegar uppbygging á svæðinu er að klárast munu Magdalena og Heba snúa sér að öðrum verkefnum. Íþróttahúsið er enn á byggingarstigi og Magdalena mun einnig teikna knatthús sem mun rísa handan íþróttahússins.

„Ég er að mestu búin að vera í þessu síðastliðin átta ár en núna er margt nýtt fram undan, til dæmis endurbæturnar á ylströndinni,“ segir Heba.

Magdalena og Heba á torginu þar sem þær telja að í framtíðinni verði haldnir hinu ýmsu viðburðir og að þar myndist skemmtileg stemning hjá fólkinu í hverfinu. Ofan á stólpanum vinstra megin við Magdalenu er þakgluggi sem færir birtu í íþróttasalinn undir
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Krökkunum í skólanum finnst huggulegt að geta sest niður úti í glugga með bók, þaðan er líka útsýni yfir fótboltavelli fyrir utan. Krakkar sem koma í skólasund í Úlfarsárdal úr skólunum í kring hafa líka notið þess að kíkja í bók ef þau eru snemma á ferði
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Matsalurinn í skólanum var hannaður með það í huga að líkjast frekar veitingastað eða kaffihúsi en mötuneyti skóla.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Íþróttahúsið er enn í byggingu en er að mestu tilbúið að utan. Inni í húsinu verða meðal annars tveir handboltavellir í fullri stærð og innan skamms mun rísa áhorfendastúka við húsið. Undir torginu á milli hússins sem hýsir bókasafnið og sundlaugina og íþ
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari