Skemmdarverk voru unnin á „Trans-Jesú“ strætisvagni Strætó í nótt. „Það er eins og einhver hefur krassað yfir hann með verkfæri. Þetta er bara eins og klórför eiginlega en ég veit ekki hvaða verkfæri hefur verið notað þarna,“ segir Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó í samtali við Fréttablaðið.
Auglýsingaherferð Þjóðkirkjunnar með „Trans-Jesú“ hefur vakið hörð viðbrögð og fjarlægði Þjóðkirkjan m.a. auglýsinguna af Facebook síðu kirkjunnar og vefsíðu hennar í síðasta mánuði.
Skemmdaverk í skjóli nætur
Guðmundur telur líklegast að skemmdaverkið hafi verið unnið í skjóli nætur en ekki komst upp um skemmdirnar fyrr en um fjögur í dag þegar flotafulltrúi Strætó ætlaði að færa vagninn í Mjóddina.
„Hann er bara á leiðinni að koma vagninum í umferð. Hann fór í þvott klukkan þrjú í nótt og er búinn að standa þarna í allan dag. Sunnudagurinn er aðeins rólegri hjá okkur og minni akstur en hann var að fara færa vagninn í Mjóddina, þegar hann sér þetta allt í einu,“ segir Guðmundur.
„Hliðið er opið en okkur grunar að einhver hafi komið þarna í nótt. Svæðið er vaktað og við ætlum núna að kíkja yfir myndavélaefnið okkar. Þetta svæði ætti að vera á mynd.“
Guðmundur segir að myndin verður löguð strax í fyrramálið.
„Kirkjan kaupir átta vikna birtingu og við erum búin að bóka það að láta laga þetta í fyrramálið. Þetta er ekki stórt tjón en algjörlega óþarfi.“