Stjórn Hollvina Húna II á Akureyri og Stjórn Hollvina Magna í Reykjavík skora á stjórn Minjastofnunar og Framkvæmda- og hafnarráð Vestmannaeyja að farga ekki skipinu Blátindi.

Blátindur sökk í óveðri í febrúar í fyrra. Talið er að það muni kosta um og yfir 100 milljónir að koma bátnum í sýningarhæft ástand.

Í áskoruninni segir að Blátindur sé síðasti báturinn sem sé til frá þeirri blómlegu skipasmíði sem hafi verið í langan tíma í Eyjum.

„Ef af förgun yrði er það óafturkræft skemmdarverk í verndun sögu skipasmíða í Eyjum og sögu Eyjanna,“ segir í áskoruninni.

Þá segir að fullyrðingar um að erfitt sé að fá efni og þekking sé varla fyrir hendi til að endurbyggja Blátind séu rangar. Í Noregi séu reglulega gerð upp gömul tréskip. Eðlilegt sé að slíkt taki fimm til tíu ár. Þannig dreifist kostnaður. „Enn eru starfandi skipasmíðastöðvar þar sem menntaðir skipasmiðir eru að starfa og annast viðgerðir á tréskipum,“ segir í áskoruninni.