Dómsmálaráðherra sýndi gildandi reglum algjört skeytingarleysi við val á dómaraefnum við Landsrétt samkvæmt dómi Mannréttindadómstóls Evrópu.

Ofan á brot ráðherra kom svo hin gallaða málsmeðferð á Alþingi og brot á þeirri málsmeðferð sem löggjafinn setti sjálfur upp til að sporna við áhrifum framkvæmdarvaldsins og flokkspólitískum áhrifum á skipan dómsvaldsins. Brot ráðherra við meðferð málsins og alvarlegir gallar á málsmeðferð Alþingis brutu í bága við kjarna þeirrar grunnreglu réttarríkisins að skipan dómstóla sé ákveðin með lögum. Hinir alvarlegu gallar á málsmeðferðinni voru að mati dómsins til þess fallnir að skaða það traust sem dómstólar í lýðræðislegu samfélagi þurfa að njóta meðal almennra borgara.

Hæstiréttur er líka gagnrýndur í dóminum fyrir niðurstöðu sína í máli kærandans. Þar sem skipun dómsins var ekki í samræmi við lög hafi brot gegn 6. gr. um réttláta málsmeðferð legið fyrir og því óþarft að leggja mat á hvort kærandinn hafi fengið réttláta málsmeðferð, þrátt fyrir galla á málsmeðferðinni. Það brást hjá Hæstirétti við meðferð málsins að mati MDE.