Þeir náðu öllu og ég er komin alveg yfir þetta. Orðin krabbafrí. Ég fór í allan pakkann í byrjun janúar 2013. Brjóstnám og lyfjameðferð sem fór mjög illa í mig og ég hef í sjálfu sér ekki náð mér að fullu eftir hana,“ segir kennarinn, hestakonan og knattspyrnuþjálfarinn Elísabet Sveinsdóttir, sem greindist með brjóstakrabbamein í desember 2012 og segja má að hafi komist á hestbaki í gegnum erfiða læknismeðferðina og það sem henni fylgdi.

Elísabet segir að eftir lyfjameðferðina hafi hún glímt við minnisleysi, mátt- og þróttleysi, en dýrin hennar hafi hjálpað henni mikið á skrykkjóttum bataveginum. „Ég þurfti alveg að forrita mig upp á nýtt og skilja mörkin upp á nýtt, en þau voru náttúrlega orðin allt önnur en þau voru,“ segir Elísabet um mörk, sem hún þurfti ekki síst að setja sjálfri sér.

Elísabet fékk hugljómun og „eitthvað gerðist“ þegar hún komst loksins aftur á bak Hramms sem var í raun sem einn af fjölskyldunni.
Elísabet og Hrammur

„Það er ekkert mjög langt síðan að ég fór að geta hólfað dagana niður og valið mér verkefni yfir daginn, þannig að ég yrði ekki eins og flak og algerlega búin á því næstu tvo daga á eftir.
Dýrin mín hafa náttúrlega komið mikið inn í þetta. Ég á hunda, kött og hesta og það heldur manni gangandi á vissan hátt að þurfa að fara út með hundinn og sinna hrossunum. Það hefur bara í rauninni haldið í mér lífinu. Það er bara algjörlega þannig.“

Hugljómun á hesti

Elísabet segir hestana og nálægðina við þá hafa riðið baggamuninn og þegar hún komst aftur á bak gæðingsins Hramms frá Galtastöðum, í fyrsta sinn eftir aðgerðina, hafi hugurinn skellt á skeið og hún fékk hugmyndina að því hvernig hún gæti nýtt bæði þekkingu sína og þá jákvæðu strauma sem hún fær frá hrossunum, til þess að hjálpa öðrum.

„Ég var ekkert búin að pæla í þessu áður og þetta gerist bara þarna þegar ég er á baki. Maður getur eiginlega ekki útskýrt þetta fyrr en maður lendir í þessu sjálfur og það varð bara einhver tenging þarna.

Hann bara fann að ég var ekki alveg hundrað prósent og hlustaði einhvern veginn betur á mig og upp frá þessu breyttist samband okkar. Ég þurfti eiginlega ekkert að taka í tauminn og talaði bara við hann með hljóðmerkjum og upp úr þessu fór ég að hugsa hvernig og hvort ég gæti ekki einhvern veginn yfirfært þessa reynslu og notað hana til þess að hjálpa öðrum.“

„Hann bara fann að ég var ekki alveg hundrað prósent og hlustaði einhvern veginn betur á mig og upp frá þessu breyttist samband okkar.“
Petra Lönnqvist

Elísabet segir að hún hafi frá fyrstu stundu eðlilega pælt í þessu með börn í huga. „Vegna þess að ég er auðvitað bara vön að vinna með börnum, sem grunnskólakennari, þjálfari og allt þetta,“ segir Elísabet, sem óhætt er að segja að hafi velt hugmyndinni fyrir sér vel og lengi, þar sem eitthvað um sex ár liðu þar til hún byrjaði að þróa meðferðarúrræðið fyrir alvöru.

Lausari taumur

„Ég var í algjöru fríi í sex vikur eftir aðgerðina og mátti ekki gera neitt og náði mér bara í næringu og orku með því að fara út í hesthús og vera þar. Þegar ég fékk svo að fara á bak þá valdi ég þann klár sem ég er vön að vera á,“ segir Elísabet um afdrifaríkan reiðtúrinn.

„Ég var bæði spennt og stressuð en það var ekki til í mér að ég væri hrædd við hann eða að fara á hestbak. Ég var stressuð en hlakkaði samt ofsalega til,“ segir Elísabet sem lét áhyggjur og varnaðarorð elstu dóttur sinnar sem vind um eyru þjóta.

„Hún sagði að ég væri brjáluð og að ég færi ekkert á honum. Hann væri allt of viljugur og að ég gæti ekkert riðið honum núna. Ég tók ekkert annað í mál en ég færi bara á þann hest sem ég þekki best og settist á bak, en hún stóð eftir á gangstéttinni og tók alveg fyrir augun og hugsaði: „Jesús minn, þetta á eftir að enda illa,“ þegar hún horfði á eftir mér.

Nema hvað, að það má segja að það hafi eitthvað gerst í þessum reiðtúr,“ segir Elísabet, sem óafvitandi lagði á nýjar slóðir á baki Hramms. „Ég hugsaði þetta bara út frá því hvernig þetta hjálpaði mér. Bara með kvíða og þunglyndi og þetta snýst ekkert endilega um að fara á hestbak. Það er í rauninni bara bónusinn.

Þetta snýst bara um að vera. Um samneytið og að skynja það þegar þeim finnst eitthvað gott sem maður er að gera. Hvernig svörunin, annað hvort jákvæð eða neikvæð, kemur um leið. Þeir eru ekkert að segja já og meina nei.“

Einn af fjölskyldunni

„Hann er allur blessaður. Hann var felldur í vor,“ segir Elísabet um Hramm frá Galtastöðum, fákinn sem fór með henni fyrsta spölinn í bataferlinu. „Við fengum hann þegar hann var sex vetra og hann varð átján í vor og þessi hestur er búinn að reynast okkur systrum alveg ofsalega vel.“

Ragnhildur Sveinsdóttir, systir Elísabetar sem hefur lengi búið erlendis, átti hestinn. „Ég sá bara um hann og var bara alveg með hann á mínum snærum. Ég hef riðið honum bæði í reiðtúrum og keppnum og Ragga hefur riðið honum þegar hún hefur komið til landsins, og báðar stelpurnar mínar hafa keppt á honum.

Hann hefur verið hluti af fjölskyldunni bara alveg frá því hann kom, og stelpurnar mínar sögðu alltaf að hann væri fjórða barnið,“ segir Elísabet og hlær.

Gagnkvæmt traust

„Hrossin kenna okkur alveg jafn mikið og við kennum þeim þegar fram í sækir. Þau eru náttúrlega bara eins misjöfn og þau eru mörg. Eins og mannfólkið. Hestarnir eru líka haldnir kvíða og finna líka fyrir spennu. Þeir geta verið þunglyndir og eru líka, þú veist, feitir, mjóir, litlir, stórir,“ segir Elísabet um hina ýmsu snertifleti hesta og manna.

Hrammur var sem einn af fjölskyldunni.
Petra Lönnqvist

„Skynjunin hjá þeim er bara svo sterk. Þeir lesa þig í rauninni bara eins og opna bók þegar þú kemur inn í hesthús. Ertu með góða viðveru? Vilja þeir koma til þín? Vilja þeir vera hjá þér? Eða ekki? Þú veist líka að ef þeir finna að þeir geta treyst þér, að þá geturðu næstum leitt þá í hvað sem er,“ segir Elísabet og er þá ef til vill komin að kjarnanum í meðferðarúrræðinu, sem hún kallar Treystu mér.

„Af því að það er einhvern veginn þannig að þegar dýrunum líður vel, þá smitast það yfir í okkur og þegar krakkarnir finna traustið hjá hrossinu, þá fara þau að treysta því.

Þannig myndast bara einhvern veginn þetta samband sem kannski næst ekki þegar þau eru í þessu skólaumhverfi okkar, sem ætlast til einhvers af þeim sem þau eru kannski ekki fær um að veita,“ segir Elísabet og bætir við að þannig geti skepnurnar auðveldað krökkunum að leggja niður varnir og læra að treysta.“

Tölt gegnum kvíðann

„Ég prufukeyrði þetta í vetur og eins og er vinn ég þetta í samráði við fjölskyldusvið Árborgar. Ég fæ skjólstæðinga þaðan og ákveð í samráði við félagsráðgjafana eða barnaverndarnefndina hvað skuli vinna með,“ segir Elísabet sem fær til sín börn sem glíma við kvíða og námsleiða, svo eitthvað sé nefnt.

„Þau tóku bara rosalega vel í þetta og að fá mig inn í flóruna,“ segir Elísabet um góð viðbrögð félagsþjónustu sveitarfélagsins við hugmyndum hennar. „Ég er búin að gera samning við Árborg, en svo geta náttúrlega foreldrar barna sem þurfa aðstoð alveg leitað til mín beint líka.

Ég var með stúlku sem kom til mín þrisvar í viku í vetur. Þá byrjaði hún daginn með mér úti í hesthúsi að sinna hestunum og svo keyrði ég hana í skólann, þar sem henni leið betur eftir að hafa farið svona inn í daginn.

Svo fékk ég líka strák til mín í vor og hann kom einu sinni í viku. Þá byrjuðum við bara í hesthúsinu og fórum í stuttan reiðtúr. Það er miklu skemmtilegra að vera hér í reiðtúr heldur en í íslenskutíma og ég veit að hann kemur aftur til mín í haust,“ segir Elísabet og hlær.

Alltaf í boltanum

Elísabet ólst upp í Kópavogi og æfði knattspyrnu með Breiðabliki og var heldur betur frek til fjörsins þegar stelpuboltinn var að ryðja sér til rúms um miðjan níunda áratuginn.
„Ég spilaði minn síðasta leik 2012 með Hetti á Egilsstöðum, en ég bjó á Egilstöðum þegar ég greindist,“ segir Elísabet sem er þó enn í boltanum sem þjálfari á Selfossi.

Breiðablik var á mikilli siglingu þegar Elísabet spilaði með liðinu og raðaði inn mörkunum, ekki síst á Gull- og silfurmótinu, en til þess forvera Símamótsins stofnuðu nokkrir feður Blikastelpna 1985, til þess að stelpurnar fengju að keppa á alvöru móti.

„Ég er mjög stolt af því að geta sagt að það voru á sínum tíma pabbarnir okkar í 3. flokki kvenna í Breiðabliki, sem stofnuðu það sem er Símamótið í dag í kringum rassinn á okkur svo að við fengjum fleiri leiki og meira að gera.“

Mótið heppnaðist það vel að það varð að árvissum viðburði, sem breyttist þegar fram liðu stundir í Símamótið. Stelpum og liðum sem tóku þátt fjölgaði jafnt og þétt frá 1985 og mótið 1992 sló öll met, þegar um 840 stúlkur mættu til leiks.

„Við vorum ekki eins margar á æfingum og þær eru núna. Alls ekki,“ segir Elísabet og hlær. „Þegar þetta er að gerast erum við tíu, ellefu, tólf ára og þá voru fjögur lið með einhvern stelpubolta,“ heldur Elísabet áfram og bendir á að á fyrsta Gull- og silfurmótinu hafi aðeins fjögur lið mætt til leiks. „Svo gerist bara eitthvað þarna á næstu árunum á eftir.“

Lítur stolt um öxl

Elísabet segir vissulega margt, en alls ekki allt, hafa breyst til batnaðar. „Auðvitað hefur þetta breyst innan félaganna og stelpurnar eru, hvað á maður að segja? Þær eru náttúrlega komnar á hærri stall en þær voru. Guð minn almáttugur,“ segir Elísabet og rifjar upp dæmisögu úr fortíðinni.

Elísabet í stórsókn á íþróttasíðum DV. Annars vegar gegn Þrótti Neskaupstað 1991, og 1992 þegar hún hampaði Íslandsmeistarabikarnum sem fyrirliði 2. flokks Breiðabliks.

„Við vorum einhvern tímann á æfingu hjá meistaraflokki Breiðabliks og vorum þá á toppnum í 1. deildinni, vorum í titlabaráttunni og öllu þessu. Við vorum á toppnum en strákarnir, sem komu á æfingu á eftir okkur og voru þá í 2. deild eða eitthvað, voru allir í æfingasettum. Og þá voru þau fleygu orð sögð við okkur að strákarnir fá búnað til að ná árangri, en við þurfum að ná árangri til að fá búnaðinn. Þetta loðir enn þá við og ekki bara hérna, heldur út um allan heim.“

Elísabet segist líta stolt um öxl yfir knattspyrnuferilinn. „Ég er mjög stolt og mér finnst ekki síst frábært að þetta Símamót, gamla Gull- og silfurmótið, sem er hápunktur sumarsins hjá mörgum fótbolta­stelpum, hafi verið búið til á sínum tíma fyrir okkur. Það var mikið gert í kringum þetta og við fengum handgerða verðlaunapeninga. Ég man bara eftir því þegar Linda Péturs kom að afhenda verðlaunin. Það var rosalegt sko. Það var bara svakalegt. Maður stóð bara með stjörnur í augum.“

Ekkert væl

Þótt Elísabet hafi lagt takkaskóna á hilluna fyrir átta árum er hún enn í boltanum, sem aðstoðarþjálfari 3. flokks kvenna á Selfossi. „Það er ógeðslega gaman að þjálfa og að geta miðlað því sem maður kann. Ég er náttúrlega kannski svolítið af gamla skólanum, en íþróttin er náttúrlega alveg sú sama.“

Elísabet segir þau Tomasz Luba, aðalþjálfara, hafa komist niður á mjög rökrétta verkaskiptingu. „Hann er kannski meira í fótboltalega þættinum og því öllu. Hann er rosalega flottur í því og þeim æfingum og ég er meira í andlega þættinum. Ég tækla hausinn á þeim meira.

Bara út frá því að hafa verið stelpa í þessu sjálf, og svo er ég náttúrlega með mína menntun og fleira, þannig að ég get svolítið tæklað þær öðruvísi en hann. Svo er líka gott að hafa Fanneyju Úlfarsdóttur með okkur, því hún er líka flottur þjálfari og kemur með enn aðra sýn á móts við okkur Tomasz.

Þetta er ágæt verkaskipting og ég reyni að miðla minni reynslu til þeirra á ýmsum sviðum og pressa á þær með hvatningu og jákvæðum punktum. Það þýðir ekkert fyrir þær að ætla að væla eitthvað í mér,“ segir Elísabet og leggur áherslu á að hún sé vel meðvituð um, og hafi í huga, að hún er með brjálað keppnisskap.

Hugsa eins og Dorrit

„Ég var náttúrlega bara biluð í keppnisskapinu. Algjörlega. Ég hef heyrt það núna á seinni árum þegar maður er orðin fullorðin og hittir einhverja sem voru að æfa með manni, að maður var víst ekkert lamb að leika við.“

Elísabet segir keppnisskapið enn til staðar og að það blossi upp í öllu sem hún tekur sér fyrir hendur. „Ég hef kannski aðeins náð tökum á þessu eftir að ég þurfti að endurforrita hvernig ég hugsa hlutina og fór að reyna að hugsa stundum eins og Dorrit.“ Þetta þarfnast vitaskuld frekari skýringa og ekki stendur á þeim.

„Einhvern tímann heyrði ég að Dorrit hefði sagt að ef hana langar í eitthvað þá bíði hún í þrjá daga og ef hana langar enn þá í það eftir umhugsunartímann, þá geri hún eitthvað í því.
Ég heyrði þetta einhvern tímann og ég hef oft hugsað um þetta. Þótt mig langi í eitthvað, eða að gera eitthvað, þá ætla ég núna að gera eins og Dorrit og hugsa þetta svolítið lengur og sjá til. Annað hvort gleymi ég því eða verð áfram að hugsa um þetta og þá gerist eitthvað.

Þetta er hluti af þessari endurforritun, því að ég get hvorki ætlast til þess af sjálfri mér eða öðrum að það þurfi alltaf að vera allt í botni,“ segir Elísabet og vitnar í tíðar umvandanir sonar síns: „Mamma það þarf ekki allt að vera keppni,“ áður en hún svarar þeirri ábendingu ákveðið og skellihlæjandi: „Víst!“

Treystu mér

Meðferðin felur í sér samneyti við hesta og umgengni við þá, þar sem Elísabet vinnur með eitt barn í einu og hrossið er umgengist á forsendum þess.

Meðferðarúrræðið sem Elísabet hugsar fyrir börn sem eiga við andlega erfiðleika eða frávik, byggir hún meðal annars á eigin reynslu og erlendum rannsóknum, sem sýna fram á að umgengni við dýr opni á fleiri og aðra möguleika til að nálgast börn sem eiga í andlegum erfiðleikum.

Meðferðin felur í sér samneyti við hesta og umgengni við þá, þar sem Elísabet vinnur með eitt barn í einu og hrossið er umgengist á forsendum þess. Börnin umgangast hestinn og hundana bæði inni í hesthúsinu sem og úti í gerði.

Engin krafa er gerð um að þau eigi að snerta eða koma nálægt hestinum, en þá er hægt að setjast niður í heyið og spjalla um hestana. Það getur oft brotið ísinn að tala um þá, eða við þá, og þá er hægt að vinna traust skjólstæðingsins með samtalinu, sem og nálægðinni við hestinn, skref fyrir skref.

Börnin læra ýmislegt um hesta, atferli þeirra og ýmis einkenni í fari þeirra. Einnig er farið í umhirðu, til dæmis með því að fóðra hrossin, kemba þau og strjúka.

Ef tilefni gefst og forsendur eru fyrir hendi, stendur barninu til boða að fara á hestbak þar sem Elísabet teymir undir, eða ríður öðrum hesti og er með taum á milli.

Allt samneyti barnsins við hestinn fer fram undir eftirliti og leiðsögn Elísabetar. Fyllsta öryggis er gætt og eru helstu öryggisatriði og búnaður fyrir hendi.