Sam­komu­bann tekur gildi á mið­nætti í Nýja-Sjá­landi eftir að eitt Co­vid-19 smit greindist innan­lands.

„Delta hefur lýst sem nýrri á­skorun og er það. Þetta þýðir að við þurfum aftur að bregðast hart og snemma við til að stöðva út­breiðslu. Við höfum séð hvað getur gerst annars staðar ef okkur tekst ekki að ná tökum á á­standinu. Við fáum að­eins einn séns,“ sagði Ja­cinda Ard­en for­sætis­ráð­herra á blaða­manna­fundi.

Þetta er í fyrsta sinn í rúmt ár sem svo­kallaðar fjórða stigs tak­markanir taka gildi í landinu. Þær verða í gildi í þrjá sólar­hringa frá mið­nætti að staðar­tíma en í Auck­land og Cor­omandel verða þær í gildi í fjóra til sjö daga. Ný­sjá­lendingar þurfa að halda sig heima í Co­vid­kúlu sem tekur einungis til heimilis­með­lima. Að­eins má fara út til að kaupa mat eða lyf, sækja læknis­þjónustu eða stunda úti­veru í sam­ræmi við fjar­lægðar­tak­markanir.

Unnið er að rað­greiningu smitsins og því ekki ljóst á þessari stundu hvort smitið sé af Delta-af­brigðinu. Ard­en sagði að stjórn­völd ynnu í sam­ræmi við að um Delta-smit væri að ræða. Sam­kvæmt gögnum frá heil­brigðis­ráðu­neyti landsins sem birtar voru í gær eru öll smit sem greinst hafa á landa­mærum af Delta-af­brigðinu.

Ja­cinda Ardern fékk fyrsta skammt bólu­efnis gegn Co­vid-19 í júní.
Fréttablaðið/EPA

„Delta fer sem eldur í sinu um heims­byggðina...þetta var ekki spurning um hvort heldur hve­nær. Eins og staðan er núna erum við eitt síðasta landið þar sem Delta stingur sér niður í sam­fé­laginu, svo við höfum fengið mögu­leikann á að læra af öðrum,“ sagði Ard­en.

„Við höfum séð af­leiðingar þess að bíða of lengi með að grípa til að­gerða, ekki síst hjá ná­grönnum okkar,“ og vísaði þar til á­standsins í Ástralíu þar sem stjórn­völd eiga í fullu fangi með að stemma út­breiðslu far­aldursins.

Skimað fyrir Covid-19 í Auckland.
Fréttablaðið/AFP

Heil­brigðis­yfir­völdum hefur ekki enn tekist að rekja smitið til landa­mæranna. Hinn smitaði er 58 ára gamall karl­maður frá De­ven­port í Auck­land. Hann fór í Co­vid-próf á laugar­dag og er talinn hafa verið smitandi frá fimmtu­deginum 12. ágúst. Hann og kona hans fóru til Cor­omandel á föstu­daginn og komu aftur til Auck­land á sunnu­daginn.

Alls hafa greinst tæp­lega þrjú þúsund Co­vid-smit á Nýja-Sjá­landi frá því að far­aldurinn hófst og 26 hafa látist. Búið er að gefa tvær og hálfa milljón skammta bólu­efnis en í­búar þar eru tæpar fimm milljónir og eru því 25,5 prósent íbúa full­bólu­sett.