Nurashima Abdul Rashid, íslensk kona af singapúrskum ættum, sigraðist á brjóstakrabbameini fyrir tíu árum og beitir sér nú fyrir því að jafna hlut kvenna af erlendum uppruna í heilbrigðiskerfinu.

Hún hélt síðastliðinn fimmtudag góðgerðakrvöld á Austur-Indíafjelaginu til að fagna lífinu með vinum og vandamönnum og til að styrkja Kraft, stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur.

Verulega hallar á erlendar konur á Íslandi að sögn Nuru en sjálf telur hún sig heppna að hafa fengið góðar upplýsingar og stuðning þegar hún barðist við krabbamein.

„Ég þekkti tvær íslenskar konur sem höfðu gengið í gegnum það sama. Þær gátu ráðlagt mér og undirbúið mig undir læknisheimsóknina. Þannig ég gat undirbúið sálina og líkamann undir meðferðina,“ segir Nura í samtali við Fréttablaðið.

Mæta fordómum ef þær tala ekki íslensku

Þegar Nura greindist með krabbamein hafði hún búið á Íslandi í fimm ár og náð góðum tökum á íslensku tungumáli en hún segir konur sem eru nýfluttar til landsins eða kunna ekki tungumálið eigi í erfiðleikum með að lóðsa sig í gegnum kerfið. Oft mæti þær fordómum.

„Það eru dæmi um að læknar horfi ekki í augun á konunum og beini tali sínu að maka þeirra ef hann er Íslendingur. Þær hringja í móttökuna og þegar starfsmaður heyrir ensku í símanum er skellt á þær,“ segir Nura og bætir við að þetta sé frekar algengt.

„Þegar ég greindist var læknirinn að reyna að útskýra meinið með læknistali á íslensku. Ég er svo frek að ég krafðist þess að hann útskýrði þetta á ensku því ég gat ekki skilið íslensku fullkomlega, sérstaklega þegar ég þurfti taka við ógrynni af upplýsingum og heyra ný og framandi orð. Læknirinn minn tók vel í það og útskýrði allt á ensku.“

Hún segir nauðsynlegt að opna umræðuna um menningarnæmi. Ísland sé fjölmenningarsamfélag og fólk nálgist veikindi á mismunandi hátt eftir menningarheimum og trúarbrögðum. Það sé nógu erfitt að greinast með krabbamein, hvað þá að vera langt frá fjölskyldu sinni í landi þar sem maður skilur tungumálið illa.

„Þær eru kannski ekki nógu heppnar að hafa lært íslensku og vita ekki hvert þær eiga að leita. Það er ótrúlega erfitt að greinast með krabbamein, hvað þá þegar maður hefur ekki stuðningsnet.“

„Þú átt að hugsa um þegna þína og það á ekki að skipta máli hvort þeir séu af erlendu bergi brotnir.“

Stofnanir eiga að útvega túlk

Nura segist hafa verið heppinn að geta leitað til fjölskyldu fyrrverandi eiginmanns síns hér á landi þegar hún greindist með krabbamein. Mamma hennar flaug einnig frá Singapúr og var hjá Nuru í mánuð þegar hún fór í brjóstnám.

„Hún var eins og klettur við hlið mér þegar ég gekk í gegnum það versta.“

Nura tárast þegar hún rifjar upp baráttuna við krabbameinið. Málefni kvenna af erlendum uppruna í heilbrigðiskerfinu er greinilega henni hjartans mál.

„Ég vil bara hjálpa þessum konum. Ég missti vin minn úr krabbameini og ég reyni mitt besta að ná til kvenna sem greinast. Það eru ekki allar sem vilja hjálp en mér finnst skipta máli að þessar konur fái allar upplýsingar.“

Segir hún nokkuð algengt að starfsmenn á heilbrigðisstofnunum átti sig ekki á því að þeir þurfi að útvega túlk ef sjúklingurinn skilur ekki íslensku fullkomlega.

„Stofnanir eiga að útvega túlk. Ef starfsmenn sjá nafn sem er ekki íslenskt þá er ekkert dónalegt að spyrja hvort aðilinn þurfi aðstoð. Þá færðu bara já eða nei, það er ekki erfitt.“

Aðspurð segir hún að konum sé gert mishátt undir höfði eftir uppruna þeirra og það sé allt frá litlu hlutunum eins og að enginn bjóði þær góðan daginn þegar þær skrái sig inn hjá móttökunni, að stóru málunum eins og að þær fái ekki nauðsynlegar upplýsingar um krabbameinsgreiningu sína.

„Þú átt að hugsa um þegna þína og það á ekki að skipta máli hvort þeir séu af erlendu bergi brotnir. Þetta er bara mannlegt eðli að vilja hjálpa hvert öðru.“

Chanel Björk Sturludóttir og Elínborg Kolbeinsdóttir eru stofnendur Hennar raddar.

Hennar rödd í Borgarleikhúsinu

Nura mun koma fram á ráðstefnu í ár um heilsu kvenna af erlendum uppruna sem fer fram í Borgarleikhúsinu í dag, þann 2. október. Félagasamtökin Hennar rödd halda utan um viðburðinn og Eliza Reid, forsetafrú Íslands, mun ávarpa gesti í upphafi ráðstefnunnar.

Meðal umræðuefna er reynsla kvenna af erlendum uppruna af heilbrigðiskerfinu, aðgengi og menningarnæmi innan þess ásamt geðheilsu, kynheilsu og frelsis.

Stofnendur samtakanna, Chanel Björk Sturludóttir og Elínborg Kolbeinsdóttir, segjast vilja með ráðstefnunni veita konum af erlendum uppruna vettvang til þess að raddir og sögur þeirra heyrist.

Einn þátttakenda á ráðstefnunni er Najmo Fiyasko, sómalísk kvenréttindakona sem upplifði nauðungarhjónaband og limlestingu á kynfærum (e. FGM) sem barn. Najmo rekur nú góðgerðastarf sem heitir MID SHOW, félagasamtök sem starfa bæði á Íslandi og í Sómalíu.

Alma Belem Serrato, sálfræðingur sem er fædd og uppalin í Mexíkó, mun einnig flytja erindi en hún sérhæfir sig í að sinna innflytjendum og flóttafólki.

Einnig mun ljósmóðirin og doktorsneminn, Edythe Mangindin frá Bandaríkjunum, flytja erindi um menningarlega auðmýkt og hvernig menning hefur áhrif á heilsu.

Nánar um dagskrá ráðstefnunnar á vefsíðu samtakanna: www.hennarrodd.is.