Óttast er að rúmlega hundrað manns hafi látist þegar röð fellibylja gekk yfir miðríki Bandaríkjanna um helgina. Líklegt er að sú tala hækki á næstu dögum og óttast ríkisstjóri Kentucky, Andy Beshear, að dauðsföllin verði fleiri en hund­rað í fylkinu þegar öll kurl verða komin til grafar. Beshear segir að minnst 64 séu látin og 105 enn ófundin.

Jafnframt á eftir að bera kennsl á fjölmörg lík en Beshear sagði fórnarlömbin allt frá fimm mánaða upp í 86 ára. Talið er að um fimmtíu fellibyljir hafi náð til Arkansas, Illinois, Indiana, Kentucky, Ohio, Missisippi, Missouri og Tennessee. Beshear segir að í Kentucky hafi meira en þúsund hús gjöreyðilagst og mörg þúsund í viðbót hafi orðið fyrir skemmdum.

Kentucky kom langverst út úr storminum þar sem eyðileggingin var hvað mest þar. Þeir íslensku nemendur sem eru að læra í Kentucky-fylki og Fréttablaðið náði tali af fundu ekki fyrir verulegum áhrifum af fellibylnum.

Bæjarstjóri Dawson Springs í vesturhluta Kentucky lýsti því í samtali við CNN að stærstur hluti bæjarins hefði verið jafnaður við jörðu og að daglegt líf væri í uppnámi. Um þrjú þúsund manns búa í bænum og er rúmlega hundrað manns saknað.

„Ég hef aldrei upplifað erfiðari tíma, þetta er gjörsamlega hrikalegt ástand,“ sagði Chris Smiley bæjarstjóri sem hefur verið búsettur í Dawson Springs í 63 ár.

Yfirmaður neyðaraðstoðar í Kentucky, Michael Dossett, tók í sama streng. „Eyðileggingin er slík að það mætti halda að stríð hefði geisað á svæðinu. Við fylgdumst með bæði íbúðarhúsum og verslunum lyftast frá jörðu og splundrast í tætlur,“ sagði Dossett.

Átta andlát hafa verið staðfest og átta starfsmanna í kertaverksmiðju er saknað. Rúmlega hundrað manns voru að reyna að anna eftirspurn eftir kertum fyrir jólavertíðina þegar stormurinn skall á verksmiðjunni. Starfsmaður sagði í samtali við CNN að það hefði virst sem einn veggur hyrfi og við það hefði þakið hrunið svo að starfsfólk, sem fékk viðvörun um að leita skjóls tuttugu mínútum áður en stormurinn gekk yfir, hefði kramist undir því.