„Ég var sjálf í þessari stöðu fyrir mörgum árum að eiga ekki fyrir mat. Það sem keyrir mig áfram er að hjálpa fólki, það er skelfilegt að geta ekki sofið út af fjárhagsáhyggjum,“ segir Sigrún Steinarsdóttir sem hefur haldið úti mataraðstoð á Akureyri í átta ár.

Sjaldan eða aldrei hefur ástandið verið verra en nú að hennar sögn. Um 240 njóta mataraðstoðar sem hún og velunnarar standa fyrir. Bæði leggur fólk inn fjárhæðir sem Sigrún millifærir á inneignarkort í Bónus og afhendir fátækum. Eins er mikið um dagleg matarframlög í kistil sem stendur á tilteknum stað á Akureyri. Geta efnalitlir sótt þar í brauð, kjöt og alls konar matvöru sem hjálpsamir skilja eftir.

Sigrún segir minni skömm fyrir efnalitla að þiggja matargjafir með þessum hætti en að standa í biðröð hjá Rauða krossinum eða Mæðrastyrksnefnd og þurfa kannski að auki að skila skattskýrslu.

„Fólk skammast sín fyrir að þurfa að þiggja svona aðstoð þannig að við ákváðum að okkar fyrirkomulag yrði auðveldara fyrir fólk.“

Aðstoðin miðast einkum við að hjálpa barnafjölskyldum. Kippur varð í aðsókn að matnum þegar skólarnir hófu göngu sína síðsumars. Sigrún segist aðeins þekkja fjögur dæmi um misnotkun öll átta árin sem hún hafi starfað í sjálfboðavinnu við málefnið. Þvert á móti þurfi fjöldi fólks aðstoð án þess að þiggja hana fremur en að óprúttnir gangi á lagið.

„Ástandið er alveg skelfilegt og það á bara eftir að versna. Húsaleiga hækkar, matvara hefur hækkað rosalega. Fólk hefur ekki efni á að borða, það á ekki fyrir reikningum. Ég er núna að fá beiðnir strax í byrjun mánaðar. Fólk á ekki neitt. Þetta samfélagsástand bitnar verst á þeim sem standa höllum fæti,“ segir Sigrún.

Íslendingar þurfa að viðurkenna að fátækt er mein á Íslandi þótt margir vilji loka augunum gagnvart þeirri staðreynd, að sögn Sigrúnar. „Þeir eru margir sem geta ekki nestað börnin sín eða gefið þeim að borða á kvöldin. Eini maturinn er kannski í hádeginu í skólum en það hafa ekki öll börn efni á skólamötuneyti.“

Beiðnir um aðstoð hafa borist Sigrúnu frá Reykjavík, Sauðárkróki, Egilsstöðum og Húsavík svo nokkuð sé nefnt. Vandinn er því ekki einskorðaður við höfuðstað Norðurlands.

Hægt er að fá nánari upplýsingar á síðunni Matargjafir Akureyri og nágrenni á Facebook.