Ant­hony Fauci, helsti sér­fræðingur banda­rískra stjórn­valda í smit­sjúk­dómum, var myrkur í máli þegar hann ræddi stöðu kóróna­veirufar­aldursins í Banda­ríkjunum en hátt í 500 þúsund manns hafa nú látist eftir að hafa greinst með CO­VID-19 þar í landi. Hvíta húsið mun standa fyrir minningarstund í tilefni þessa síðar í dag.

„Þetta er virki­lega skelfi­legt. Þetta er sögu­legt. Þetta er eitt­hvað sem við höfum ekki gengið í gegnum í 102 ár, frá inflúensu­far­aldrinum 1918,“ sagði Fauci í við­tali hjá CNN í gær og bætti við að fólk verði enn að tala um far­aldur CO­VID-19 ára­tugum síðar sem „skelfi­leg tíma­mót í sögu landsins.“

Sam­kvæmt upp­lýsingum Johns Hop­kins há­skólanum hafa nú rúm­lega 28,1 milljón manns greinst með veiruna í Banda­ríkjunum og 498.901 manns látist eftir að hafa smitast. Dánar­tíðnin í Banda­ríkjunum er nú meðal þeirra hæstu í heiminum, tæp­lega 149 á hverja 100 þúsund íbúa.

Toppinum náð

Far­aldurinn virðist vera í á­kveðinni niður­sveiflu í Banda­ríkjunum eftir að met­fjöldi til­fella greindist í janúar en engu að síður greindust rúm­lega 500 þúsund til­felli í síðustu viku og voru rúm­lega 13 þúsund and­lát skráð.

Bólu­setningar eru hafnar í Banda­ríkjunum með bólu­efni Pfizer og BioN­Tech annars vegar, og bólu­efni Moderna hins vegar. Sam­kvæmt upp­lýsingum á vef Sótt­varna­mið­stöðvar Banda­ríkjanna, CDC, er búið að gefa rúm­lega 63 milljón skammta af bólu­efnunum og er búið að bólu­setja hátt í 44 milljón manns.

Joe Biden Banda­ríkja­for­seti hefur áður gefið það út að mark­miðið sé að gefa 150 milljón skammta fyrir lok apríl en að sögn Fauci má á­fram gera ráð fyrir tak­mörkunum á sam­komum og grímu­skyldu þrátt fyrir að bólu­setning gangi vel.