Hengillinn er klasi mó­bergs­fjalla við dyra­gætt Reykja­víkur og sést vel þaðan. Þetta er gömul megin­eld­stöð og sú eina sem til­heyrir eld­stöðva­kerfi Reykja­nes­skaga. Undir Henglinum er kviku­hólf sem skýrir mikla jarð­hita­virkni svæðisins og er jarð­varðminn nýttur í Hellis­heiðar­virkjun og Nesja­valla­virkjun, ein­hverjum stærstu jarð­hita­virkjunum í heimi.

En Hengillinn er ekki að­eins risa­stór ofn heldur einnig sér­stök náttúru­perla, hvort sem hún er heim­sótt gangandi eða á fjalla- eða ferða­skíðum. Þetta á ekki síst við um hæsta tindinn, Vörðu-Skeggja, sem gnæfir upp í 805 m hæð í norð­vestur­hluta fjalla­klasans og bíður ró­legur eftir að verða heims­frægur eins og náttúru­laugarnar í Reykja­dal vestar í Henglinum. Þennan út­vörð Hengils­svæðisins ættu allir að heim­sækja en ekki tekur nema hálf­tíma að aka úr Reykja­vík að göngu­leiðunum og út­sýnið af toppnum er mergjað.

Hægt er að velja um nokkrar leiðir og velja flestir Sleggju­beins­skarð sem er auð­veldast nálgast af veginum að Hellis­heiðar­virkjun. Þaðan er stikuð göngu­leið í gegnum Inn­sta­dal og eftir Hvera­gili og síðan fylgt mó­bergs­hryggjum upp á Skeggja. Til baka má velja aðra leið vestar eða austar. Göngu­leið norðan­megin eftir Dyra­dal er þó enn til­komu­meiri. Er þá ekinn Nesja­valla­vegur í átt að Þing­völlum uns komið er að þessum þrönga og svip­mikla dal. Snar­brattur norður­veggur Skeggja blasir við beint í suður og minnir á Dólómítana í ítölsku Ölpunum. Þarna eru engar hita­veitu­leiðslur, bor­holur né virkjanir og auð­velt að gleyma sér í stór­kost­legri náttúru sem skartar hellum og stór­kalla­legum hraun­myndunum.

Botni dalsins er fylgt að kletta­veggnum og síðan sneitt upp brattar brekkur austan Skeggja en há­tindinum er auð­veldast að ná úr suð­austri. Á veturna er rétt að hafa jökla­búnað með í för en þessi brekka er líkt og aðrar brekkur Hengilsins frá­bær fyrir fjalla­skíði, ekki síst þær sem liggja niður að Sleggju­beins­skarði eða fram af norð­vestur­hlíðum hans. Af Vörðu-Skeggja er ein­stakt út­sýni til norðurs yfir Þing­valla­vatn, Ár­manns­fell, Skjald­breið og Hlöðu­fell og í austri blasir sjálf Hekla við á­samt Tind­fjöllum og Eyja­fjalla­jökli. Í næsta ná­grenni eru síðan Vífil­fell og Blá­fjöll og í vestur höfuð­borgin eins og hún leggur sig á­samt Esju Móskarðs­hnúkum og Skála­felli.

Í Henglinum eru fantagóðar fjallaskíðabrekkur – nánast við dyragætt Reykjavíkur
Mynd/Sigtryggur Ari
Hengillinn er megineldstöð með kvikuhólfi sem skýrir jarðhitavirknina.
Mynd/ÓMB