Grunur leikur á að minnsta kosti fjórtán álftir hafi verið skotnar hér á landi. Guðmundur Hjörtur Falk Jóhannesson fuglaljósmyndari vakti athygli á málinu inn á Facebook síðunni Skotveiðispjallið í dag og birti mynd af hræjunum.

Hann segist hafa fengið myndina senda til sín nafnlaust og segir klárt mál að myndin hafi verið tekin á Íslandi. Þá sjáist í Kristal dósir í skottinu og einnig í íslenskan ryðvarnarlímmiða í afturrúðunni. Í skottinu liggja hræ af þrettán álftum og glittir í skotsár.

„Ég veit ekki hvenær myndin er tekin en það breytir því ekki, þetta er jafn ólöglegt hvort sem þetta er tekið fyrir tveimur árum eða í dag,“ segir Guðmundur.

Hann geti þó hvorki staðfest hvenær myndin hafi verið tekin né hver hafi skotið fuglana. Sumir aðilar rökræða um tegundina á skotveiðispjallinu og velta fyrir sér hvort um álft eða svan sé að ræða.

„Íslenska álftin er eina svanategundin á Íslandi og hún er alfriðuð,“ staðfestir Gunnar Þór Hallgrímsson fuglafræðingur í samtali við Fréttablaðið. Það er í höndum stjórnvalda að ákveða hvort friðun sé aflétt en álftin er alfriðuð árið um kring.

„Ég held að það sé eðlilegt að kæra beint til lögreglu. Þetta er brot á villidýralögum. Í grunninn eru allar fuglategundir friðaðar en hægt er að aflétta friðun á veiðitímabilum, en hjá álftinni er ekki aflétting á friðun. Þetta er bara lögbrot og ekkert flóknara en það,“ segir Gunnar.

„Ef menn geta staðfest þetta lögbrot, að það sé alveg óyggjandi að þessar fuglar hafi verið skotnir hér, þá er næsta mál að kæra þennan atburð.“

Fréttir hefur verið uppfærð.