Á áttunda tímanum í gærkvöldi var lögreglu tilkynnt um farþega í bifreið í Kópavogi sem „skaut úr loftbyssu í sitjanda á reiðhjólamanni,“ eins og það er orðað í dagbók lögreglu.

Bifreiðin var stöðvuð skömmu síðar og loftbyssan haldlögð. Eigandi hennar er ólögráða unglingur og var málið unnið með aðkomu forráðamanna og tilkynningu til Barnaverndar að sögn lögreglu.

Einnig barst lögreglunni tilkynning um innbrot í Laugardal í Reykjavík klukkan níu í gærkvöldi. Þar var búið að spenna upp glugga, fara inn og stela verðmætum. Málið er sagt vera í rannsókn.

Tilkynnt var um umferðaróhapp í Árbæ á fimmta tímanum í gær þar sem bifreið rann mannlaus aftur á bak, braut bílskúrshurð hjá nágranna og endaði inni á bílskúrsgólfi. Skemmdir urðu á bifreið, bílskúrshurð og tjaldvagni.

Þá var fjöldi ökumanna stöðvaður fyrir of hraðan akstur við umferðareftirlit lögreglu.

Einn ökumaðurinn var aðeins 17 ára og ók á 126 km/klst í Ártúnsbrekku þar sem er 80 km/klst hámarkshraði. Málið var afgreitt með aðkomu forráðamanna og tilkynningu til Barnaverndar.