Elín Sigríður Gísladóttir fékk bréf frá Ríkisskattstjóra um henni standi skil á 98 krónum fyrir hönd móðir sinnar, sem lést fyrir rúmum tveimur árum.

Greinilegt er að skuldirnar, þó þær séu jafn litlar og 98 krónur, elti mann út yfir dauða og gröf. Velta má upp hvort kostnaður við að senda slíkt bréf sé meiri en fæst við innheimtu en ódýrasta bréfasendingin hjá Póstinum kostar 195 krónur.

„Þetta er algjörlega galið,“ segir Elín Sigríður í samtali við Fréttablaðið. Hún og systkini hennar eru furðu lostin yfir bréfinu.

„Eftir að manneskja deyr hafa aðstandendur um það bil ár til að fara yfir gögnin og skila inn öllum skýrslum. Á þessum tíma hafa stofnanir líka tíma til að yfirfara hlutina. Svo skilar maður inn þessari skýrslu og Skatturinn tekur sinn tíma til að fara yfir og ganga úr skugga um að all sé rétt og svo greiðir maður skattinn. Maður myndi halda að maður væri laus eftir það,“ segir Elín en líkt og bréfið sýnir er það greinilega ekki tilfellið.

„Þetta er í annað sinn sem við fáum svona. Við fengum fyrst bréf frá Tryggingastofnun rúmi ári eftir að hún lést um að hún hafi fengið ofgreiddar einhverjar þrjú þúsund krónur.“

Elín hefur ekki haft samband við Skattayfirvöld um þessar 98 krónur sem hún og systkini hennar skulda. „Mér finnst þetta bara skrýtið og eiginlega bara dónaskapur. Ég veit ekki alveg hver ávinningurinn er af þessu. Er þetta eitthvað sjálfvirkt kerfi eða er starfsmaður að sýsla með okkar fé til að finna þetta?“

Bréfið sem Elín Sigríður fékk frá Skattinum.
Mynd: Aðsend

Fékk bréf um dánarbú 40 árum síðar

Elín minnist þess þegar hún og systkini hennar misstu föður sinn árið 1977. Árið 2016, þegar móðir hennar var búin að vera ekkja í tæpa fjóra áratugi, fékk hún bréf stílað á eiginmann sinn heitinn.

„Þá hafði einhver hjá Sýslumanninum á Hvolsvelli farið að garðast í einhverjum málum og komist að því að eitthvað sem hafi verið á dánarbeðinu væri óbreytt. Þá voru 40 ár liðin. Hversu galið að fólk sé enn í kerfinu eftir að uppgjör á dánarbúi er búið að fara fram.“