Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði, segir að hliðarspor Bjarna Torfa Álfþórssonar, bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi í gær, kunni að fara í sögubækurnar. Fá ef nokkur fordæmi séu fyrir því að Sjálfstæðismaður hlaupist undan flokksmerkjum með pólitískum andstæðingum til að hækka skatta.

Bæjarstjórn Seltjarnarness samþykkti í gær að útsvarsprósenta hækkaði úr 13,7 prósentum í 14,09 prósent. Sjálfstæðisflokkurinn hefur hreinan meirihluta í sveitarfélaginu. Einn af fjórum fulltrúum flokksins í meirihlutanum, Bjarni Torfi Álfþórsson, og minnihlutinn náðu niðurstöðu saman. Hinir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórninni greiddu allir atkvæði gegn skattahækkuninni.

„Það er líka athyglisvert við þetta mál að Seltjarnarnes hefur þótt velmegandi sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu í tímans rás þar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft meirihluta mjög lengi,“ segir Grétar Þór. „Seltjarnarnes hefur verið eitt af þessum ógnarsterku sveitarfélögum flokksins og það hefur ekki frést af mikilli óþekkt innan raða meirihlutans hingað til,“ bætir hann við.

Júdasarstimpill

Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðiprófessor tekur undir með Grétari um að málið sé mjög áhugavert. Engin þekkt fordæmi komi í fljótu bragði upp í hugann varðandi slík hliðarspor í röðum Sjálfstæðismanna.

Bjarni Torfi segir að í desember í fyrra hafi hann lagt til útsvarshækkun í bókun. Því þurfi afstaða hans nú ekki að koma á óvart, hann hafi ekki gert sér grein fyrir að hann væri á leið í sögubækurnar. Aldrei sé vinsælt að hækka skatta en nýbúið sé að veita bæjarstjóra heimild til að taka stórt lán til ýmissa framkvæmda. Afborganir af lánum ásamt öðru kalli á hærra útsvar.

„Mér hefur fundist sem veggirnir milli flokka séu lægri í sveitarstjórnarmálum en landsmálum, en eflaust líta sumir á mig sem einhvern Júdas. Það eru alltaf tvær hliðar á svona ákvörðun. Ég hef bara fengið jákvæð viðbrögð frá íbúum,“ segir Bjarni Torfi.

Karl Pétur Jónsson, bæjarfulltrúi Viðreisnar á Seltjarnarnesi, segir að skattahækkunin auki fjárhagslegt svigrúm bæjarins um 96 milljónir á komandi ári. Með því losni um fjárhagslega spennitreyju sveitarfélagsins. Bjarni Torfi hafi sýnt ábyrgð og hugrekki með því að styðja tillögu minnihlutans.sgerður Halldórsdóttir, oddviti, samflokksmaður Bjarna Torfa og bæjarstjóri á Seltjarnarnesi, er á annarri skoðun:

„Mér þykir þetta mjög miður, ég hefði viljað bíða með allar skattahækkanir fram á næsta ár og skoða þá hvort þörf er á þeim.“

Ásgerður neitar því aðspurð að um djúpstæðan klofning sé að ræða innan Sjálfstæðismanna. Hún segist ekki sjá fyrir sér miklar afleiðingar innan raða meirihlutans.

„Við megum vera stolt af framkvæmdum og þjónustu á kjörtímabilinu. Við munum skila góðu búi.“