Mynd af hnúfu­bak, sem skotinn var á hafi úti og hræið skilið eftir, hefur vakið mikla reiði á Græn­landi. Hval­veiði­menn hafa keppst við að lýsa yfir hryllingi sínu vegna málsins enda er um klárt brot á græn­lenskum lögum að ræða.

Sam­kvæmt lögum á Græn­landi ber veiði­mönnum að nýta allt dýrið sem veitt er.
Mynd/Facebook

Sam­kvæmt græn­lenskum lögum þurfa veiði­leyfis­hafar, hvort sem er til einka­nota eða í hagnaðar­skyni, að til­kynna um afla sinn, þar á meðal á smærri hvölum og var það ekki gert í þessu til­felli. Auk þess er skylda að nýta allt dýrið en ekki bara hluta þess.

Á myndinni sést hræið fljóta í sjónum þar og búið er að skera stór stykki úr baki þess, sem borðuð eru ýmist hrá eða elduð og kallast muktuk.

Niður­sneitt og með­höndlað muktuk.
Mynd/Wikimedia Commons

Í færslu á Face­book for­dæmir veiði­maðurinn Søren Rosing frá bænum Qeqerta­su­atsia­at drápið. „Sem veiði­maður er skammar­legt að sjá að sjá slíkar myndir þar sem dýr eru skotin án þess að hræið sé fjar­lægt.“ og Í um­mælum við hana taka margir kollegar hans undir.

Vilja betri úr­ræði gegn brotum á veiði­reglum

„Við teljum þetta afar slæmt og ekki í anda á­byrgra veiða,“ segir Amali­e Jes­sen hjá græn­lensku fiski­stofunni í skrif­legu svari til dag­blaðsins Sermitsiaq. Hún segir unnið að frum­varpi um vernd og veiðar smærri hvala sem veita heimild til að grípa til að­gerða gegn þeim sem ganga svona fram við hval­veiðar, til að mynda með því að nýta ekki allt dýrið.

„Þegar við fáum á­bendingar um lög­brot, rann­sökum við þau með því að hafa sam­band við sýsluna þar sem meint lög­brot áttu sér stað. Ef það er veiði­eftir­lits­maður á svæðinu, höfum við einnig sam­band við hann til að að­stoða við rann­sóknina. Auk þess könnum við hvort veiðin hafi verið gefin upp.“

Yfir­völd hyggjast nú ræða við alla veiði­menn í Qeqerta­su­atsia­at vegna málsins og á­rétta að til­kynna þurfi um allan afla.