Fangi var stunginn með hníf í nokkur skipti í fótlegg á Kvíabryggju. Varð að flytja fangann á heilsugæslu og gera að sárum hans. Sá sem beitti fyrir sig hnífnum var handtekinn í fangelsinu.

Árásin átti sér stað seinnipartinn í gær en starfsmenn fangelsisins hafa hvorki viljað staðfesta né neita að það hafi gerst. Ekki er vitað hvort mennirnir, sem eru báðir íslenskir, hafi átt harma að hefna. Fremur er talið að atvikið sé tengt vímuefnaneyslu árásarmannsins.

Sá sem hlaut skaðann var stunginn nokkrum sinnum í fótlegg. Sárin voru ekki djúp og var farið með hann á heilsugæslu til aðhlynningar.

Ekki náðist í lögregluna á Vesturlandi eða Fangelsismálastofnun við vinnslu þessarar fréttar.