„Við ætluðum flest að eiga besta ár allra tíma þar sem 2020 hljómar mega vel en samkomu­bann var ekki það sem við vorum með í huga. Þannig að þegar samkomu­bannið skall á langaði mig að halda áfram að vera skapandi og á sama tíma dreifa smágleði og kannski gera eitthvað sem fólk gat látið sig hlakka til,“ segir Linda Jóhannsdóttir hönnuður.

Linda á og rekur fyrirtækið Pastel­paper og undir nafni þess hannar hún meðal annars myndir og kort sem seld eru í hönnunarbúðum og á listasöfnum. Frá því að samkomubannið var sett á hefur hún skapað eina mynd á dag.

Orginal verk á 6000 kall

„Myndirnar skapa ég allar í A4 á pappír en annars engar reglur, bara hvað mig langar skapa þann daginn. Ég vildi hafa myndirnar á þannig verði að flestir, sem langaði að eignast verk, hefðu tök á því núna þegar efnahagur fólks er kannski ekki sá besti. Myndirnar eru allar orginalar þannig að það er bara ein af hverri, þær eru áritaðar og kosta sex þúsund krónur,“ segir Linda.

Líkt og fjöldi listamanna hafði Linda hug á því að taka þátt í Hönnunarmars en þegar hátíðinni var frestað spratt upp hugmyndin að því að skapa eina mynd á dag. „Það kemur alltaf eitthvað gott út úr svona tímabili og eflaust gæti COVID kannski flokkast undir skapandi eyðileggingu, það er að ákveðin tækifæri tapast en á sama tíma myndast önnur og því um að gera að grípa þau. Ég vissi að það var mikilvægt fyrir mig að vera skapandi í samkomubanninu,“ segir hún og bætir við að hún fái sinn innblástur að miklu leyti frá litum.

Þá segist Linda finna fyrir miklum meðbyr með verkefninu og listamönnum í ástandinu sem myndast hefur vegna kórónaveiru­faraldursins. „Það er einmitt á svona tímum sem fólk styður extra mikið við íslenska listamenn, sem er frábært,“ segir hún.

Yfir þrjátíu verk seld

„Það skiptir ekki máli hvort það eru myndlistarmenn, hönnuðir, tónlistarmenn, leikarar eða aðrar skapandi greinar, lífið væri verra án þeirra og held ég að flestir átti sig á því að þetta ástand hefur auðvitað mikil áhrif á þau eins og aðra, en fólk í skapandi greinum er oft með lítil fyrirtæki eða er verktakar þannig að það er lítið öryggi,“ segir Linda.

Hún hefur nú skapað og selt 34 myndir og hyggst halda áfram með verkefnið. „Planið var að gera þetta út samkomubannið, svo var það framlengt svo ég hélt áfram og mun halda áfram að skapa mynd dagsins,“ segir Linda. „Það er frábært að sjá stuðninginn og vonandi komum við bara sterkari út úr þessu,“ segir hún. Mynd dagsins birtist á Insta­gram síðu Pastelpaper á hverjum degi klukkan 15.