Lyklum að skápum í gamla karlaklefum í Sundhöll Reykjavíkur er ítrekað stolið og var ástandið sérstaklega slæmt eftir síðustu helgi að sögn forstöðukonu sundlaugarinnar, Drífu Magnúsdóttur.
„Já það virðist vera vinsælt að taka með sér lykilinn heim, líklega til þess að eiga aðgang að sínum klefa næsta dag eða einhver gleymir lyklinum í höndunum á leið út. Þetta er mismikið og eftir síðustu viku var þetta óvenju slæmt,“ segir Drífa í svari til Fréttablaðsins um málið.
Hún segir að ekki sé haldið sérstaklega utan um kostnaðinn sem þessu fylgir en að hann felist aðallega í vinnunni sem felst í því að skipta út skrám og færa þær á milli.
„Við höfum ekki verið að halda utan um fjölda lykla sem hverfa, þeir skila sér stundum aftur og við erum að nota sömu skrárnar á milli skápa,“ segir Drífa í svari sínu.
Hún metur það svo að ekki sé um að ræða stöðugildi eins og þessu er sinnt í dag og að kostnaðurinn sé ekki stóra málið, heldur óþægindin sem þetta skapar fyrir bæði sundgesti og starfsmenn.
„Ég vil samt taka það samt fram að það eru alltaf lausir skápar sem hægt er að læsa með hengilás, menn gætu jafnvel notað gömlu klefana fyrir fataskiptin og svo geymt sitt dót í skáp með hengilás meðan á sundferðinni stendur,“ segir Drífa að lokum.
Lyklum stolið fyrir hálfa milljón í Grafarvogi
Þetta er ekki aðeins vandamál í miðbænum því greint var frá því á síðasta ári að lyklum hefði verið stolið fyrir hálfa milljón í Grafarvogslaug.