„Ímynd hjúkrunar þarf að vera sterk og við þurfum að vinna að því að hún sé sterk til að fá fólk inn í fagið. Það er mikilvægt fyrir hjúkrunarfræðistéttina og samfélagið á Íslandi. Við þurfum öll að leggjast á eitt til að skapa sterka ímynd,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Ragnheiður Ósk flytur annað af lykilerindum á ráðstefnu hjúkrunarfræðideildar Háskóla Íslands sem fram fer í húsnæði Menntavísindasviðs í Stakkahlíð í dag. Yfirskrift ráðstefnunnar er „Í fararbroddi: Rannsóknir í hjúkrunar- og ljósmóðurfræði“.

Er þetta í fjórða skipti sem ráðstefnan er haldin en hún er tileinkuð minningu dr. Guðrúnar Marteinsdóttur dósents sem vann frumkvöðlastarf í kennslu í hjúkrunarfræði en hún lést fyrir aldur fram árið 1994.

Auk lykilerindanna tveggja verða flutt fjögur boðserindi á ráðstefnunni auk 42 erinda í sjö málstofum.

Hjúkrun í ljósi samfélags og framtíða

Ragnheiður Ósk mun í sínu erindi leggja áherslu á hjúkrun í ljósi samfélags og framtíðar og þær áskoranir sem því tengjast.

„Það er áskorun í samfélaginu að fólk sé sjálfbært með eigin heilsu. Það þekki einkenni og viti hvert það eigi að leita. En viti líka hvenær það eigi að leita á hvaða stað þannig að það fái rétta þjónustu.“

Tekið sé á þessum þáttum í heilbrigðisstefnu til ársins 2030 þar sem áhersla sé lögð á rétta þjónustu á réttum stað. Ragnheiður bendir á að eldra fólki og fólki með langvinnandi sjúkdóma sé að fjölga og þessir hópar lifi lengur.

„Við þurfum að vinna að því að hjálpa þessum hópum. Bæði með því að fræða fólk og efla það til að vera svolítið sjálfbært og ábyrgt gagnvart eigin heilsu.“

Önnur áskorun tengist tækniþróun og samfélagsbreytingum. „Það getur verið mjög erfitt að horfa fram í tímann varðandi alla tæknina. Við náum engan veginn utan um það hvað verður. Hvort við munum sjá róbota eða alls konar heilbrigðistæknilausnir sem verið er að ræða að nýta í heimahúsum.“

Þetta séu stórar áskoranir og fylgjast þurfi vel með tækninni og nýta hana. „Heilbrigðiskerfið er mjög stórt og flókið og það er oft erfitt að innleiða hluti. En við verðum líka að vera vakandi fyrir því hvað er hentugt og hvað ekki.“

Ragnheiður segir dagskrá ráðstefnunnar sýna vel hversu sterk faggrein hjúkrunarfræðin sé. „Allt okkar starf byggir á gagnreyndri þekkingu þar sem það er rannsakað hvað virkar og hvað ekki. Við þurfum að sinna rannsóknum vel en líka lesa mikið af rannsóknum og fylgjast með.“

Hún segir að vel sé hlúð að fræðaþættinum, bæði innan Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri, þar sem hjúkrunarfræði er kennd, og inni á heilbrigðisstofnunum.

Auglýsa eftir ungu fólki og strákum

„Ég auglýsi eftir unga fólkinu og strákunum að koma í hjúkrun. Þetta er svo fjölbreytt starf. Þú getur unnið með öllum aldurshópum, allt frá börnum og til aldraðra. Svo geturðu unnið við allt frá forvörnum og yfir í að vera á gjörgæslu eða bráðamóttöku,“ segir Ragnheiður.

Þannig ættu allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Ragnheiður segist líka binda miklar vonir við nýtt grunnnám í hjúkrunarfræði sem hefst í haust. Þar geta þeir sem lokið hafa öðru háskólanámi lokið BS-gráðu á tveimur árum.

„Það er mjög spennandi kostur. Okkur vantar fólk til starfa og að það viðhaldist í starfi. Þetta er mjög skemmtilegt og fjölbreytt starf. Mér hefur ekki leiðst einn einasta dag í þessu starfi síðan ég útskrifaðist.“