Hluti þeirra erlendu einstaklinga sem eru með réttarstöðu sakbornings í manndrápsmálinu í Rauðagerði hefur áður komið við sögu lögreglu í heimalöndum sínum. Fimm eru í gæsluvarðhaldi, fjórir í farbanni og alls tólf með réttarstöðu sakbornings.

Líkt og hefur áður komið fram er rannsókn morðsins umfangsmikil og teygir anga sín út fyrir landsteinana. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vinnur með löggæslu frá heimalöndum hinna grunaða, aðallega til afla upplýsinga um möguleikan sakaferil þeirra. Margeir Sveinsson hjá miðlægri rannsókanardeild lögreglu stýrir rannsókninni og ræddi síðdegis við Fréttablaðið um stöðu málsins.

Hann staðfestir að lögregluyfirvöld í heimalöndum sakborninga hafi sent lögreglunni hér á Íslandi upplýsingar um þá sem eru í haldi. Aðspurður hvort þeir séu góðkunningjar lögreglu í sínum heimalöndum segir Margeir að hluti þeirra séu það vissulega.

„Það er mismunandi hvað menn hafa komið mikið við sögu hjá lögreglunni erlendis. Sumir hafa engan sakaferil og aðrir hafa komið eitthvað við sögu hjá lögreglunni,“ segir Margeir í samtali við Fréttablaðið. Hann getur ekki farið út í smáatriði um hvers konar glæpi þessir menn eiga að hafa framið í heimalöndum sínum.

Líftæknisvið tæknideildar rannsakar gögn sem mögulega innihalda lífsýni.
Mynd/Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu

Blóðferlar og fingraför

Eflaust velta margir lesendur fyrir sér hvernig morð eru rannsökuð hér á landi, sérstaklega morðmál sem eru jafn óvenjuleg og Rauðagerðismálið þar sem maður var skotinn til bana með byssu fyrir utan heimili sitt. Ein stærsta deildin sem kemur að málinu er tæknideild lögreglu. Þar starfa sérfræðingar við að taka sýni og rannsaka sönnunargögn af vettvangi. Stór hluti vinnunnar er að kryfja gögn úr tölvum og símum sem getur tekið óratíma að fara í gegnum.

Á þriðja tug manna kemur að rannsókn málsins. „Þetta er tímafrekt verkefni en gríðarlega mikilvægt. Sérfræðingar okkur spegla tækin og taka endurrit og svo eru ýmsar aðrar upplýsingar en símagögn sem við öflum okkur sem þarf að vinna úr. Það tekur óratíma að fara í gegnum hvert og eitt gagn,“ segir Margeir.

Eins eru sérfræðingar við líftæknisvið tæknideildar sem rannsaka gögn sem mögulega innihalda lífsýni. Þarna eru blóðferlasérfræðingar, fingrafarasérfræðingar og meira að segja skotlínusérfæðingar.

„Þeir hafa sérhæft sig í vettvangsrannsóknum og hjálpa okkur að búa til heildstæða mynd af því sem hefur gerst. Þeir eru með sýnatökur, skoða blóð og fingraför.“