Allir skammtar af bólu­efni Jans­sen eru búnir í höllinni. Þetta stað­festir Ragn­heiður Ósk Er­lends­dóttir, fram­kvæmda­stjóri hjúkrunar hjá Heilsu­gæslunni við Frétta­blaðið.

Eins og fram hefur komið var opið boð í höllina áðan, þar sem klára þurfti þá skammta sem höfðu verið blandaðir af Jans­sen bólu­efninu. Vel hefur gengið að koma þeim út en fyrir rúmum tveimur tímum síðan voru 1500 skammtar eftir.

Tveir árgangar til viðbótar voru boðaðir til bólusetningar í morgun vegna dræmrar mætingar þeirra sem boðaðir höfðu verið. Þórólfur Guðnason sagði í síðustu viku að Janssen væri ekki verra bóluefni en hin.

„Mér finnst full­mikið gert úr því að Jans­sen sé að valda auka­verkunum. Það er verið að gefa þau skila­boð að það sé eitt­hvað verra bólu­efni en hin en það er bara fínt bólu­efni, Jans­sen bólu­efnið. Öll þessi bólu­efni eru góð og eru að gera það sem þau eiga að gera.“

Ragnheiður sagði við Fréttablaðið að betur hefði gengið í bólusetningu þegar á leið daginn. „Það gengur vel eftir að við boðuðum fleiri. Boðuðum tvo ár­ganga til við­bótar, karla 1991 og konur 1989. Það var allt of lítið í morgun en núna er rosa gangur á þessu,“ sagði Ragnheiður um hálf tvö leytið í dag.

Þetta er í annað skiptið sem gripið hefur verið til frjálsrar mætingar vegna dræmrar mætingar í bólu­setningu með Jans­sen en það gerðist líka í síðustu viku. Þá, rétt eins og nú, kláraðist bólu­efnið loks á endanum.

Fréttin hefur verið upp­færð.