Líklegt er að skammhlaup í rafmagni hafi valdið því að eldur varð laus í Notre-Dame kirkjunni í París á mánudag. Kirkjan stórskemmdist í eldinum. Sky greinir frá þessu.

Þar segir að enn hafi ekki fengist leyfi til að hefjast handa við vinnu í kirkjunni af öryggisástæðum. Enn er unnið að því að treysta stoðir hennar. Mikil hætta sé á hruni innan í kirkjunni.

Til stendur að endurbyggja Notre-Dame en Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur lofað að það verði gert á fimm árum. Auðmenn hafa heitið háum fjárhæðum til endurbyggingarinnar.

Macron stóð í dag fyrir athöfn í forsetahöllinni, þar sem slökkviliðsmönnum sem börðust við eldinn og komu í veg fyrir frekara tjón, voru sæmdir orðum.