Árstíðabundið þunglyndi (e. seasonal affective disorder) er nákvæmlega það sem nafnið gefur tilkynna, árstíðabundið afbrigði þunglyndis. Sú mynd árstíðabundins þunglyndis sem einna helst þekkist hér á landi gerir venjulega vart við sig síðla hausts eða snemma um veturinn, hopar með vori og kallast skammdegisþunglyndi.

Það er ekki talið sérstakur geðsjúkdómur heldur afbrigði þunglyndis. Að því er kemur fram á vef geðheilbrigðisstofnunar Bandaríkjanna eru þekkt einkenni yfir veturinn meðal annars orkuleysi, ofát og ofsyfja. 

Öllu minna þekkt hér á landi er svokallað sumarþunglyndi, sem einnig telst til árstíðabundins þunglyndis, og lýsir það sér meðal annars í svefnleysi, lítilli matarlyst, kvíða og eirðarleysi. Rannsókn sem geðheilbrigðisstofnunin vísar til í umfjöllun sinni hefur sýnt fram á að fjórfalt fleiri konur greinast með árstíðabundið þunglyndi en karlmenn. Þá sé maður einnig líklegri til þess að þjást af árstíðabundnu þunglyndi þeim mun fjær miðbaug sem maður býr. Sama rannsókn, sem Sherri Melrose, prófessor við Athabasca-háskóla í Kanada, gerði, sýndi einnig fram á að eitt prósent Flórídabúa þjáðist af árstíðabundnu þunglyndi en níu
prósent Alaskabúa. Skoðanakönnun Weather Channel og YouGov frá árinu 2014 sýndi svo fram á að 29 prósent Breta teldu sig þjást af einhvers konar skammdegisþunglyndi. 

Breska heilbrigðisstofnunin segir á vef sínum að orsakir árstíðabundins þunglyndis séu einna helst þrjár. Í fyrsta lagi offramleiðsla svefnhormónsins melatóníns, í öðru lagi of lítil framleiðsla hormónsins serótóníns, til að mynda vegna sólarleysis, og svo í þriðja lagi vanstilling líkamsklukkunnar vegna skammdegisins. Sálfræðivefritið PsyPost sagði í janúar frá víðtækri erfðamengisrannsókn (e. GWAS) á árstíðabundnu þunglyndi sem prófessor James Bennett Potash við Johns Hopkinsháskóla stýrði.

Rannsakendur skoðuðu tilfelli 1.380 Bandaríkjamanna með árstíðabundið þunglyndi og 2.937 Bandaríkjamanna án þess og náðu að afmarka gen sem gæti tengst aukinni hættu á því að þróa með sér árstíðabundið þunglyndi. „Við vitum að tilhneiging til þunglyndis sem versnar eftir því sem dagurinn styttist á rætur sínar að rekja að hluta til erfða fólks. Það sem okkar rannsókn sýnir fram á er að það séu vísbendingar um eitt gen sem gæti útskýrt þessa tilhneigingu. Genið kallast ZBTB20 og inniheldur upplýsingar um framleiðslu prótíns sem, að minnsta kosti á meðal músa, snýr að líkamsklukkunni og breytingu hegðunar vegna styttingar dagsins,“ hafði PsyPost eftir Potash. Konur eru margfalt líklegri til að þjást af árstíðabundnu þunglyndi.

Meðferðir við árstíðarbundnu þunglyndi

Samkvæmt bresku heilbrigðisstofnuninni eru helstu meðferðarmöguleikarnir við árstíðabundnu þunglyndi ferns konar. Í fyrsta lagi er hægt að breyta lífsstílnum, í öðru lagi er hægt að sækja svokallaða ljósameðferð, í þriðja lagi undirgangast hugræna atferlismeðferð hjá sálfræðingi og í fjórða lagi lyfjagjöf. Ljósameðferð er trúlega sá kostur sem fólk kannast síst við. Í grein sem Andrés Magnússon geðlæknir skrifaði á vefsíðu SÍBS fyrir tveimur árum segir að þar sem líkamsklukkan stýri mörgum ferlum líkamans og ráði að mestu svefni og vöku þurfi sterkt ljós á morgnana til að flýta líkamsklukkunni, á kvöldin til að seinka henni. 

Meðferðin færi fram með ljósakössum sem sterkum flúorperum er komið fyrir í. ljósin séu síðan látin snúa á móti notandanum. Fimm geðlæknar og prófessorar við háskólann í Maryland og við Columbia í New York rannsökuðu ljósameðferð við árstíðabundnu þunglyndi og birtu afraksturinn í grein árið 2009. Rannsóknin leiddi í ljós að meðferðin er árangursrík þegar fólk með árstíðabundið þunglyndi undirgengst hana daglega í að minnsta kosti nokkrar vikur. Fimmtán einstaklingar, greindir með árstíðabundið þunglyndi en höfðu ekki undirgengist meðferð, voru til rannsóknar. Sérstaklega var leitast við að kanna hvort lengd meðferðartíma hefði áhrif á líðan og voru 20, 40 og 60 mínútna meðferðartímar prófaðir. „Við komumst að því að strax má sjá mun á líðan eftir fyrsta ljósameðferðartímann þótt hann taki ekki nema 20 mínútur og að því að 40 mínútna tímar virka jafn vel og 60 mínútna.