Karlmaður hlaut í gær þrjátíu daga fangelsisdóm, skilorðsbundið til tveggja ára, í héraðsdómi Reykjaness fyrir líkamsárás sem átti sér stað árið 2019 fyrir framan skemmtistaðinn Spot í Kópavogi.

Maðurinn var ákærður fyrir að veitast að öðrum manni með ofbeldi og skallað annan mann tvívegis í andlitið sem varð til þess að brotaþoli hlaut áverka á nefi.

Ringlaður skallaður aftur

Brotaþolinn lýsti atvikinu þannig að hann hafi staðið fyrir utan Spot að ræða við fólk, og þá hafi hann séð manninn koma allt í einu og rekast utan í fólk. Hann sagðist hafa litið undan en þá hafi maðurinn skallað hann í andlitið.

Við það hafi hann orðið ringlaður, en séð manninn út undan sér miða á andlitið á sér, og þá verið skallaður aftur. „Nef vitnisins hafi brotnað og blóð verið út um allt. Vitnið hafi orðið máttlaust í fótum, gripið í ákærða, togað í hann og þeir fallið í jörðina.“ segir í framburði brotaþola.

Þá eiga dyraverðir skemmtistaðarins að hafa komið á vettvang, en þá hafi sá ákærði og félagar hans hlaupið inn á staðinn.

Nánast rúmliggjandi vegna nefáverkana

Áverkum brotaþola er lýst í farmburði hans. Hann sagðist hafa fengið höfuðverk og farið í veikindaleyfi. Síðan hafi honum verið sagt upp störfum um það bil einum og hálfum mánuði eftir atvikið. Hann kvaðst hafa verið nánast rúmliggjandi í kjölfarið og meðal annars ekki geta setið við tölvu.

Í dómnum var vitnað í vottorð og álitsgerðir þriggja lækna sem fjölluðu sérstaklega um áverka á nefi brotaþolans.

Vitni á vettvangi staðfesti frásögn brotaþola.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Segist hafa skallað í sjálfsvörn

Sá ákærði neitaði sök í málinu. Hann kvaðst ekki muna eftir atvikum en viðurkenndi þó að hann hefði skallað mann, en sagði það hafa verið í sjálfsvörn. Hann vildi meina að hann hafi verið skallaður fyrst. Í dómnum er tekið fram að ekkert hafi komið fram í málinu sem styðji að han hafi verið skallaður áður en hann skallaði sjálfur.

Þá var vitni á vettvangi þegar atvikið átti sér stað, en framburður hans studdi frekar við frásögn brotaþola.

Líkt og áður segir hlaut maðurinn þrjátíu daga fangelsisdóm, skilorðsbundin til tveggja ára. Þá var hann dæmdur til að greiða 421.274 krónur í skaðabætur, 400.000 krónur í málskostnað, 138.539 í sakarkostnað og 313.875 til verjanda síns, en ríkissjóður mun greiða sömu upphæð.