Guð­rún Vil­mundar­dóttir út­gefandi hjá Bene­dikt bókaútgáfu lenti í því að þremur af væntan­legum skáld­sögum hennar seinkar um viku vegna anna hjá prent­smiðju. Mikill pappírs­skortur er í heiminum um þessar mundir og hafa margir ís­lenskir bóka­út­gef­endur þurft að gera ráð­stafanir vegna þess.

„Ég lendi í seinkunum með þrjár skáld­sögur, fæ þær viku seinna heldur en hafði verið samið um í upp­hafi,“ segir Guð­rún en bækurnar sem um ræðir eru Stór­fiskur eftir Frið­geir Einars­son, Hægt og hljótt eftir Magnús Guð­munds­son og Konan hans Sverris eftir Val­gerði Ólafs­dóttur.

Frétta­blaðið greindi áður frá því að Bjarni Harðar­son, út­gefandi Sæ­mundar og eig­andi Bóka­kaffi­sins á Sel­fossi, lenti í því að þurfa að fresta tíu væntan­legum bókum um eitt ár.

Prent­smiðjan sem um ræðir er í Þýska­landi og segir Guð­rún þau hafa til­kynnt sér um sein­kunina með góðum fyrir­vara. Hún á­kvað þó að láta prenta nokkrar af ljóða­bókum sínum hér á landi.

„Ég á reyndar eftir að fá farminn en ég er búin að fá stað­festingu á því að það sé þessi viku seinkun sem þeir til­kynntu mér með góðum fyrir­vara. Viku seinkun er náttúr­lega ekkert skemmti­leg ef maður er á ystu nöf en ég var alveg á góðum tíma þannig hún breytir engu til eða frá,“ segir hún.

Bækurnar áttu að koma út núna eftir helgi en koma í staðinn út í þar­næstu viku. Að sögn Guð­rúnar sendir prent­smiðjan henni iðu­lega nokkur ein­tök af hverri bók með hrað­sendingu og verða þau ei­lítið fleiri núna til að bæta henni upp sein­kunina.

„Ég hef fundið það á sam­skiptum við prent­smiðjuna að það er erfitt hjá þeim,“ segir hún en bætir þó við að henni sýnist allt vera á réttri leið og telur hún að Jóla­bóka­flóðið muni fara fram með eðli­legum hætti.

„Ég held reyndar að þetta sé allt að bjargast, ég veit ekki betur en þetta sé allt á góðri leið og verði allt í lagi. En þetta er náttúr­lega okkar á­lags­tími og það er nóg álag þó að allt gangi eins og í sögu, þannig að ef það er pappírs­skortur og seinkanir ofan á allt annað þá veldur það náttúr­lega upp­námi,“ segir Guð­rún að lokum.