Jósefína Meulengracht Dietrich, köttur og skáld á Akranesi, skrifaði nýlega undir samning um útgáfu fyrstu ljóðabókar sinnar, Jósefínubókar. Þetta kemur fram í Fréttaveitu Vesturlands, Skessuhorni.

Bókin er samansafn eitt hundrað ljóða sem Jósefína hefur ort í gegnum tíðina og deilt á Facebook síðu sinni.

Samningarnir voru undirritaðir við hátíðlega athöfn föstudaginn 17. maí síðastliðinn og var glatt á hjalla að sögn Jósefínu.

Um er að ræða þríhliða útgáfusamning Jósefínu, Kattavinafélags Íslands, sem rekur Kattholt og Bókaútgáfunnar Sæmundar á Selfossi. Þá hyggst Jósefína láta öll höfundarlaunin renna til Kattavinafélags Íslands og þannig launa Kattholti fyrir að hafa bjargað lífi sínu fyrir áratug síðan.

Þá hefur höfundur nú þegar skilað handriti og er bókin komin langt í vinnslu. Stefnt er að útgáfu hennar í haust.