Innlent

Skál fyrir drottningunni

Tómas Guðbjartsson, læknir og náttúruunnandi, og Sigtryggur Ari Jóhannsson ljósmyndari fjalla um sérstæðar perlur í íslenskri náttúru.

Útsýnið af toppi fjallsins kemur mörgum á óvart, ekki síður ofan í gíg fjallsins en vítt og breitt yfir norðaustur-hálendið. Fréttablaðið/ Sigtryggur Ari

Herðubreið er jafnan nefnd Drottning íslenskra fjalla, enda óumdeilt að hún er eitt fegursta fjall á Íslandi. Fjallið sést víða að enda trónir 1682 metra hár tindurinn upp úr auðninni í kring. Auðveldast er að sjá Herðubreið af þjóðveginum milli Mývatns og Möðrudals. Sennilega hafa þó fleiri Íslendingar séð hana á myndum, ekki síst á óteljandi barnslegum olíumálverkum eftir Stefán frá Möðrudal, sem jafnan kallaði sig Stórval.

Herðubreið er meðal frægustu fjalla hér en líkt og frægt fólk á hún sér leyndardóma. Ekki eru allir sem vita að aðeins er ein fær gönguleið upp fjallið, eða úr vestri. Auðveldast er að komast að uppgöngustaðnum úr suðaustri frá Herðubreiðartöglum. Er þá ekið eftir torfærum jeppaslóða að frumstæðu bílastæði við jaðar Ódáðahrauns í 500 metra hæð. 

Á brattann er að sækja en fjallið er alls ekki illviðráðanlegt fyrir sæmilega einbeitt göngufólk. Mynd/ Ólafur Már

Einnig má koma gangandi úr Herðubreiðarlindum. Þetta er krefjandi ganga en fá fjöll er skemmtilegra að klífa enda stórkostlegt útsýni af toppnum, meðal annars til Snæfells, Kverkfjalla, Dyrfjalla, Holuhrauns, Dyngjufjalla, Trölladyngju og Kollóttadyngju.

Göngu á Herðubreið má líkja við kennslustund í jarðfræði en á leiðinni upp sökkulinn og klettabeltið má sjá helstu skrefin í myndun fjallsins, sem er svokallaður stapi sem verður til við gos undir jökli. Flest vant göngufólk ætti að ráða við verkefnið sem tekur um 5-6 klukkustundir. Gangan í gegnum klettabeltið er þó snúin og ekki fyrir lofthrædda. Mesta hættan stafar af grjóthruni, einkum á heitum dögum. Því er nauðsynlegt að hafa hjálm á höfði og hafa meðferðis mannbrodda, ísöxi, göngubelti og línu. 

Toppgíg Herðubreiðar er aðeins hægt að berja augum af gígbarminum. Í honum er fallega blátt vatn. Fréttablaðið/Ólafur Már Björnsson

Skynsamlegt er staðkunnugur sé með í för sem og staðsetningartæki, enda getur veður í þessari hæð breyst skyndilega og þá getur orðið mjög villugjarnt og erfitt að finna niðurleiðina. Kostur er að vera ekki of mörg á ferð til að minnka hættu á grjótlosi á leiðinni upp klettabeltið.

Ríflega tuttugu manna hópur gekk á fjallið síðustu helgi. Hér er hluti hópsins á flórsykurhjúpuðum toppinum. Mynd/ Tómas
Helsta hættan sem göngufólki er búin er vegna grjóthruns. Það er nauðsynlegt að hafa hjálm. Mynd/ Tómas

Annað leyndarmál sem okkur langar til að ljóstra upp um drottninguna er að á kolli hennar er sérlega tilkomumikil gígskál. Síðari hluta sumars skartar hún ísjökum sem mara í blágrænu leysingarvatni og minnir á abstrakt málverk. Aðstæður til að ganga á Herðubreið hafa sjaldan verið jafn góðar og í sumar, það sannreyndum við á ferð okkar með Ferðafélagi Íslands um síðustu helgi. Uppgönguleiðin var snjólítil enda Drottningin útitekin eftir stöðugar sunnanáttir. Haldi sólarleysið áfram sunnanlands er því margt vitlausara en skála við Herðubreið – og af hverju ekki á toppnum.

Vaskur hópur kemur niður af fjallinu. Hér sést uppgönguleiðin. Fréttablaðið/ Sigtryggur Ari
Vinskafið ský vakir yfir drottningunni. Herðubreiðartögl í forgrunni. Fréttablaðið/ Sigtryggur Ari
Vegslóðin er gróf en fær flestum jeppum. Mynd/ Ólafur Már
Sólsetur við Herðubreið. Hér er horft innan úr Kverkfjöllum. Mynd/ Ólafur Már

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Innlent

Fór illa út úr hruninu en vann 45 milljónir í vikunni

Innlent

Reyndi að borða flug­miðann sinn

Innlent

Fínt vetrar­veður fram eftir degi en hvessir í kvöld

Auglýsing

Nýjast

Á­rásar­maðurinn myrti fimm manns á vinnu­stað í Illin­ois í gær

Leiðar­vísir að Kata­lóna­réttar­höldunum

Réðist á gesti og starfs­fólk

Nefnd HÍ skeri ekki úr um lögmæti rannsókna

Öllu tjaldað til við leit að loðnu austur fyrir landi

Vill ekki vanrækja bandamenn lengur

Auglýsing