Óvenjulegar nágrannaerjur skekja nú Faxafen 12 sem lengi hefur verið höfuðvígi íslenskrar skáklistar. Þar hafa Taflfélag Reykjavíkur og Skáksamband Íslands verið til húsa í áratugi en að auki hefur fjölbreytt atvinnustarfsemi verið rekin í húsinu.

Skáklistin er iðja sem krefst mikillar einbeitingar og því eru skákmenn mjög viðkvæmir fyrir hvers kyns hávaða. Forsvarsmenn skákhreyfingarinnar hrósuðu því happi þegar líkams- og hugræktarstöðin Primal flutti í næsta rými við aðalkeppnissal Taflfélags Reykjavíkur.

Ástæðan var sú að sá kvittur komst á kreik að stöðin hygðist leggja áherslu á hugrækt og jóga, sem í huga leikmanna ætti jú að þýða ró og frið. Tvær grímur runnu þó á skákmenn þegar í ljós kom að um líkamsræktarstöð væri að ræða þar sem hávær tónlist spilaði stóra rullu. Botninn tók þó endanlega úr þegar dýrsleg öskur fóru að berast úr salarkynnum nágrannans á meðan mikilvægasta mót ársins var í gangi.

Undanfarin misseri hafa forsvarsmenn Taflfélags Reykjavíkur og Primal reynt að höggva á hnútinn án þess að niðurstaða hafi fengist. Eins og áður segir sauð í raun upp úr í fjórðu umferð Skákþings Reykjavíkur, elsta og virtasta móts ársins í íslensku skáklífi, sem fram fór í síðustu viku.

Á meðan tæplega sextíu skákmenn á öllum aldri börðust til síðasta blóðdropa í huganum fór fram tvöfaldur tími í því sem skákmenn töldu að væri öskurjóga í salnum við hliðina.

„Ég hef bara uppi efasemdir um hvert við erum komin sem samfélag,“ segir skákmeistarinn Sigurbjörn Björnsson aðspurður um hans upplifun af öskrunum. Alþjóðlegi meistarinn Davíð Kjartansson var beygður eftir umferðina. „Þetta voru eins og óhljóð í dýrum,“ segir Davíð.

Ríkharður Sveinsson, formaður Taflfélags Reykjavíkur, vildi þó ekki gera mikið úr málinu og sagðist bjartsýnn á að lausn fyndist.

Þór Guðnason, einn eigenda Primal, segir að forsvarsmenn líkamsræktarstöðvarinnar séu allir af vilja gerðir til þess að leysa málið. „Ég veit ekki hvaðan sá misskilningur kom að við værum jógastöð. Það eru vissulega kenndir jógatímar hjá okkur en fyrst og fremst erum við líkamsræktarstöð,“ segir Þór.

Hann segir að öskrin megi rekja til námskeiðs í leikrænni tjáningu sem hafi farið fram í salarkynnum þeirra en því námskeiði sé lokið. „Vandamálið er fyrst og fremst það að salurinn sem við erum í var áður í eigu taflfélagsins. Þegar rýmið var hólfað niður var ekki nægilega vel gætt að hljóðeinangrun og því er mjög hljóðbært á milli þessara salarkynna. Það er eitthvað sem ég vona að verði bætt úr,“ segir Þór.