Á síðustu hundrað árum hafa íslensk börn hækkað, þyngst og hafa meiri brjóstvídd og andrýmd, sem ber merki um betra líkamlegt ásigkomulag. Gripstyrkurinn hefur hins vegar minnkað, líklegast vegna minni erfiðisvinnu.

Þetta kemur fram í meistaraverkefni sjúkraþjálfarans Lindu Bjarkar Valbjörnsdóttur, undir leiðsögn Árna Árnasonar og Þórarins Sveinssonar hjá Háskóla Íslands, sem birt var í Læknablaðinu. Mælingar voru gerðar tvisvar á skólaárinu 2018 til 2019 hjá grunnskólabörnum á Sauðárkróki og Varmahlíð og þær bornar saman við mælingar skólameistarans Jóns Þ. Björnssonar á Sauðárkróki frá árunum 1912 til 1953.

Linda segir Jón hafa verið mikinn frumkvöðul. Fyrstu mælingar á heilsu skólabarna voru gerðar í Reykjavík árið 1901, eftir mikla umræðu á Norðurlöndum um að hollustuhættir skóla væru ekki nógu góðir og jafnvel skaðlegir.

Árið 1916 setti landlæknir fram ákvæði þess efnis að skólar fengju ekki styrk úr Landssjóði nema þar færi fram skólaeftirlit ásamt læknisskoðun.

Jón gekk hins vegar skrefi lengra og gerði ítarlegri mælingar, mældi hæð, þyngd, andrýmd, brjóstvídd og gripstyrk tvisvar á ári og reiknaði meðaltöl yfir lengri tíma. Þetta hefur varðveist í línustrikuðum bókum.

„Það fundust ekki beinar heimildir fyrir því hvers vegna Jón ákvað að skoða heilsufar skólabarna, en talið er að hann hafi viljað sýna fram á að skólavistin hefði ekki neikvæð áhrif á heilsufar og líkamsástand barnanna,“ segir Linda, sem sjálf er frá Sauðárkróki og starfar við Heilbrigðisstofnun Norðurlands.

Linda Björk Valbjörnsdóttir bar mælingar sínar saman við mælingar Jóns Þ. Björnssonar fyrrum skólameistara á Sauðarkróki
Mynd/samsett

Ekki hægt að fullyrða um ástæður fyrir breyttu líkamsástandi

Í rannsókninni kemur fram að bæði hæð og þyngd barna hefur aukist frá fyrri hluta 20. aldar og er sú aukning marktæk.

Það sama á við um aukna brjóstvídd og andrýmd en gripstyrkurinn hefur dalað. Þetta á við um flesta bekki skólans og er aukningin nokkuð mikil. Til dæmis hafa stúlkur í 6. bekk hækkað um 15 sentimetra, úr 135 í 150 á rúmri einni öld og piltar í 7. bekk þyngst úr 35 kílóum í 50. Einnig sjást miklar breytingar innan þess rúmlega 40 ára tímabils sem Jón mældi.

„Hugsanlega hefur Jóni þótt skorta fleiri mælingar til að geta áttað sig betur á almennu heilsufari og þroska barnanna,“ segir Linda, aðspurð um hvers vegna þessar þrjár síðustu mælingar voru gerðar.

„Aukinn gripstyrkur með hækkandi aldri hjá börnum og unglingum er eðlilegur þáttur, en ef styrkur stendur í stað eða minnkar, gæti það hugsanlega stafað af sjúkdómum, slysum eða slæmum aðbúnaði og næringarskorti, sem getur haft neikvæð áhrif á þroska barna. Þá ætti brjóstvídd og andrýmd einnig að aukast með hækkandi aldri, aukinni hæð og auknum líkamsþroska.“

Linda segir að ekki sé hægt að fullyrða hverjar ástæðurnar séu fyrir breyttu líkamsástandi barna en heimilisaðstæður og fæðuframboð hafi breyst mikið, bæði yfir tímabilið sem Jón mældi nemendur sína og þar til í dag. Húsakostur hafi batnað og fátækt minnkað.

Aukning fæðuframboðs skýrir líkamsbreytingu bæði til hins betra og verra, en framboð á óhollustu var langtum minna áður fyrr. Rannsóknin sýnir að líkamsþyngdarstuðull, reiknaður út frá hæð og þyngd, hefur hækkað mikið.

Þetta er ekki það eina sem getur skýrt þetta breytta líkamsástand barna. Linda segir einnig að rannsóknir sýni að kynþroski stúlkna sé að færast neðar í aldri. Það megi ætla að það sama eigi við um pilta þó að engar rannsóknir liggi þar að baki.

„Ekki er hægt að fullyrða hvers vegna gripstyrkur hafi almennt minnkað, en í dag eru skólabörn almennt ekki í erfiðisvinnu eins og tíðkaðist á þeim tíma sem Jón mældi sína nemendur,“ segir Linda.