„Það hefur varla verið sumar hér, maður verður að segja það,“ segir Viggó Jónsson, eigandi Drangeyjarferða, um veðráttuna á Norðurlandi í sumar.

Sumarblíðan hefur lítið látið á sér kræla norðan til í ár. Það hefur áhrif á ferðaþjónustuna, á strandveiðar og á landbúnað. Viggó segir muninn við fyrri ár þó ekki afgerandi.

„Það eru alltaf einhverjar tafir í þessum ferðum til Drangeyjar bara út af bliku og þess háttar,“ segir Viggó. „Þetta er ekkert afgerandi meira í ár en hefur áður verið. En við erum samt á eftir í ferðamannafjölda frá því í fyrra.“ Viggó segir hótelrekendur fyrir norðan hafa yfir litlu að kvarta hvað varðar fjölda gistinótta. Lélegt veður komi aðallega til með að torvelda fjallgönguferðir, en þær tíðkist hvort eð er lítið í kringum Skagafjörð.

„Ég var að ræða við hóteleiganda í gær og hann bar sig ekkert illa. Ég held að gistingin hafi verið þokkaleg. Ég á von á því að það sé ekki alveg jafn bjart yfir ferðum á fjöll, en það eru svo sem ekki margir í því hér á Skagafirði. Það eru ekki fastar gönguferðir til fjalla hér, þannig að það kemur kannski ekkert að sök.“

Þá nefnir Viggó að veðrið hafi verið áskorun fyrir strandveiðimenn og bændur en þó ekki óyfirstíganleg eða óeðlileg.

„Kúabændur voru búnir að ná þokkalegum heyjum áður en rigningartíðin hófst. Þetta eru svo stórar og miklar vélar sem menn eru að vinna með. Það verður þó örugglega kærkomið að fá þessa þurru daga sem er verið að spá núna.“