Skaft­ár­hlaupið sem hófst síðasta laugar­dag hefur minnkað tölu­vert undan­farið og í morgun var það komið niður í 600 rúm­metra á sekúndu við Sveins­tind. Auður Guð­björns­dóttir, bóndi á Bú­landi í Skaft­ár­hreppi, segir að betur hafi farið en á horfðist um helgina.

„Þetta er farið að sjatna mjög mikið þarna heima, það hefur lækkað alveg mikið í ánni, við erum bara voða glöð að þetta varð ekki meira en þetta.“

Auður segist hafa þurft að smala eitt­hvað af sauð­fé fyrr en á­ætlað var til að forða þeim frá ánni.

„Við þurftum að reka frá ánni í rauninni svo það myndi ekki lokast í ein­hverjum hólmum eða lenda undir vatni. Þannig við fórum bara í það rétt áður en það fór að hækka í ánni og við vonum að bara að það hafi allt bjargast.“

Skaftárhlaup þriðjudaginn 7. september.
Fréttablaðið/Valli

Hún segist ekki vita til þess að hún hafi misst eitt­hvað af sauð­fé en það muni þó ekki koma að fullu í ljós fyrr en smalað verður. Þá hafi eitt­hvað tjón orðið á varnar­görðum inn af Skaft­ár­dal.

„Við erum svo sem ekki búin að sjá neitt og við svo sem vitum það ekki fyrr en við förum að smala um næstu helgi hvort það vanti eitt­hvað af fé. Við eigum land þarna inn af Skaft­ár­dal og þar eru náttúr­lega varnar­garðar frá okkur sem er kostnaðar­samt að ýta upp aftur þannig að það er alltaf eitt­hvert tjón sem við fáum ekki borgað. Svo fyrir utan það að það er alltaf að brjóta af landi og það er náttúr­lega aldrei gott.“

Auður hafði á­hyggjur af þremur brúm sem eru stað­settar inni í Skaft­ár­dal en þær hafa hingað til staðið af sér veðrið. Þá segir hún að mun betur hafi farið en á horfðist og býst ekki við því að hlaupið muni taka sig upp aftur úr þessu.