Bandarískur þingmaður birti jólamynd af sér og fjölskyldu sinni á Twitter þar sem sjá má sjö meðlimi fjölskyldunnar skælbrosandi haldandi á byssum. Myndin þykir mjög umdeild sérstaklega í ljósi þess að hún birtist einungis nokkrum dögum eftir að fjögur ungmenni voru myrt af hinum 15 ára gamla Ethan Crumbley í skotárás í menntaskóla í Michigan.
„Gleðileg jól! P.S. Sveinki, komdu vinsamlegast með skotföng,“ skrifaði Thomas Massie, þingmaður í fulltrúadeild Bandaríkjaþings frá Kentucky við myndina.
Massie, sem er repúblikani og fulltrúi kjördæmis sem er yfirmáta rautt, stillti sér upp fyrir myndina ásamt sex fjölskyldumeðlimum sem héldu öll á mismunandi skotvopnum sem líkjast meðal annars M60, hríðskotabyssu, AR-15 hálfsjálfvirkum riffli og Thompson vélbyssu.
Kosningastjóri Massie hefur ekki svarað beiðni Reuters fréttastofunnar um að veita ummæli.
Merry Christmas! 🎄
— Thomas Massie (@RepThomasMassie) December 4, 2021
ps. Santa, please bring ammo. 🎁 pic.twitter.com/NVawULhCNr
Ekki allir í Kentucky hálfvitar
John Yarmuth, eini fulltrúi demókrata frá Kentucky á Bandaríkjaþingi, hefur fordæmt myndbirtingu kollega síns.
„Ég er nógu gamall til að muna eftir því þegar repúblikanar öskruðu að það væri ónærgætið að reyna að vernda fólk frá byssuofbeldi í kjölfar harmleikja. Núna hæðast þeir opinberlega að barnamorðum eins og þeir hafi skorað mark. Skammarlegt,“ skrifaði Yarmuth á Twitter.
„Ég lofa því að það eru ekki allir í Kentucky ónærgætnir hálfvitar,“ bætti hann við.
Skotárásin í Oxford, Michigan í síðustu viku hefur vakið heimsathygli en fjögur ungmenni létust í árásinni auk þess sem kennari og sex aðrir nemendur særðust. Ethan Crumbley framdi morðin með byssu sem foreldrar hans keyptu á Black Friday útsölu og gáfu honum í jólagjöf.
James og Jennifer Crumbley hafa verið ákærð fyrir aðild að morðinu og manndráp af gáleysi vegna gjafarinnar en þau voru handtekin í gær eftir að hafa reynt að flýja lögregluyfirvöld.
I’m old enough to remember Republicans screaming that it was insensitive to try to protect people from gun violence after a tragedy. Now they openly rub the murder of children in our faces like they scored a touchdown. Disgraceful.
— Rep. John Yarmuth (@RepJohnYarmuth) December 4, 2021