Skæð fuglaflensuveira fannst í íslenskum haferni sem drapst í október í fyrra og er þetta í fyrsta skipti sem slíkar veirur finnast hér á landi.

Þetta kemur fram á vef Matvælastofnunar.

Staðfestir þetta mat sérfræðinga um að miklar líkur séu á að alvarleg afbrigði fuglaflensuveiru berist hingað til lands með farfuglum.

Gæta vel að sóttvörnum

Matvælastofnun brýnir fyrir alifuglaeigendum að gæta sérstaklega vel að sóttvörnum sem lúta að því að koma í vef fyrir smit úr villtum fuglum.

Þá sé mikilvægt að allir sem finni dauða vilta fugla tilkynni Matvælastofnun um þá.

Haförninn sem dó var með senditæki á sér og gátu því fuglafræðingar hjá Náttúrufræðistofnun Íslands sótt fugl og bætt honum í hóp annarra hafarna sem hafa drepist á síðastliðnum árum.

Fuglarnir voru sendir til Þýskalands í ýmis konar rannsóknir á vegum Náttúrufræðistofnunar þar sem skæða fuglaflensuveiran greindist í þessum tiltekna fugli.

Sum afbrigði geti sýkt fólk

Sum afbrigði fuglaflensu geta sýkt fólk því brýnir Matvælastofnun fyrir fólki að gæta persónulegra sóttvarna við handfjötlun á villtum fuglum.

„Ef taka þarf upp dauðan fugl skal það gert með einnota hönskum og hann settur í plastpoka eða með því að stinga hendi í plastpoka og taka fuglinn upp með pokanum og draga pokann svo yfir fuglinn og loka fyrir,“ segir á vef Matvælastofnunar.

Matvælastofnun vill ítreka fyrri tilmæli sín um að allir sem finna dauða villta fugla tilkynni um þá til stofnunarinnar, nema ef augljóst sé að þeir hafi drepist af slysförum.

Best er að gera það með því að skrá ábendingu á heimasíðu stofnunarinnar. Þegar tilkynning berst metur stofnunin hvort taka skuli sýni úr fuglinum.